144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

áætluð hækkun bóta og launa í ríkisfjármálaáætlun.

[15:33]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ef það er rétt sem hæstv. ráðherra segir, að það sé ekkert að marka þessa áætlun, eigum við auðvitað að draga hana til baka, fara með hana aftur inn í nefnd og gefa okkur tíma til að lagfæra hana. Svona plögg eru mjög mikilvæg til að leggja forsendur fyrir fjárlög og stefnumótun inn í framtíðina.

Ég fagna því að hæstv. ráðherra dregur fram að bætur voru hækkaðar umfram verðlag á síðasta kjörtímabili, sérstaklega fyrir ákveðna hópa. Sérstaka framfærsluuppbótin vó sérstaklega þungt. Hún var um 40 þús. kr. og var umtalsverð fyrir þá sem höfðu engar aðrar tekjur en hún hefur þann galla að aðrar tekjur skerða þessar bætur krónu á móti krónu. Þess vegna hafði maður væntingar um það að núna, þegar ný ríkisstjórn tæki við og hagurinn færi að batna, kæmu einmitt leiðréttingar á þessu vegna þess að þarna þýðir þetta að það er ekki fyrr en menn eru komnir yfir 60–70 þús. kr. í lífeyristekjur sem lágmarksbæturnar hækki raunverulega. Ég veit að hæstv. ráðherra vill gjarnan (Forseti hringir.) breyta þessu, ég veit að hún er að endurskoða lögin, en það hefur dregist í tvö ár. Mig langar að heyra skoðun hennar á því hvort ekki sé þá ástæða til að bíða með ríkisfjármálaáætlunina, í staðinn fyrir að segja að hún sé ónýt, og tryggja að kjörin verði bætt strax.