144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:03]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og spyr hv. þingmann sem er með mikla þingreynslu um stöðu svona þingsályktunartillögu eftir að búið er að samþykkja hana. Tillagan hefst á þessum orðum:

„Alþingi ályktar, sbr. 6. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, að stjórnvöld fylgi stefnumörkun um ríkisfjármál fyrir árin 2016–2019 samkvæmt eftirfarandi yfirliti um áformaða afkomu- og skuldaþróun“ o.s.frv. Síðan er yfirlitið birt.

Segjum að þingheimur geri það sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur lagt til, þ.e. að ályktunin verði samþykkt óbreytt þó að við vitum að ekki sé gert ráð fyrir húsnæðisfrumvörpunum og kostnaði við þau hér inni, það er ekki búið að gera ráð fyrir skattbreytingunum, a.m.k. ekki allri upphæðinni. Það er gert ráð fyrir skattbreytingum af því að það er stefna þessarar ríkisstjórnar að einfalda skattkerfið en gert er ráð fyrir að það kosti bara 2–6 milljarða en að skattbreytingarnar sem kynntar voru um daginn kosti um 10 milljarða, ef ég man þá tölu rétt.

Síðan mun losun hafta væntanlega hafa áhrif. Ef inn koma peningar til að greiða niður skuldir hefur það líka áhrif á þessa útkomu alla saman. Þessi ályktun var lögð fram 1. apríl og núna rúmum tveimur mánuðum seinna hafa svona miklar breytingar átt sér stað og ég spyr hv. þingmann hvort hann átti sig á því hvað menn eru að samþykkja. Af hverju er framkvæmdarvaldið bundið þegar þingið er búið að samþykkja þær tölur sem birtar eru hér í töflunni?