144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:12]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir ræðuna. Mig langar að vera á svipuðum nótum og hv. þm. Oddný Harðardóttir vegna þess að ég er einn af þeim sem hafa viljað sjá langtímaáætlanir í þinginu, þ.e. að komið sé með forsendur inn í þingið, þær ræddar, þingið taki afstöðu til mála og ræði grundvallaratriðin því að hér er einmitt tekist á um við hvaða kaupmáttaraukningu er búist og hvaða skattkerfi verði. Hvernig búum við um félagslegu þættina í kerfinu og þar með almannatryggingar, bætur og annað slíkt?

Mér finnst stjórnarmeirihlutinn hafa talað af svolitlu virðingarleysi um þessa ríkisfjármálaáætlun sem ég held að sé gott skref, m.a. þegar hæstv. ráðherra segir: Þetta er bara áætlun, þegar maður innir eftir því. Hér er verið að gefa forsendurnar.

Ég segi þetta sérstaklega vegna þess að bara það sem skrifað var í nefndarálit meiri hluta hv. fjárlaganefndar í fjárlagafrumvarpinu — þeir vissu auðvitað að það var búið að setja þetta þar inn. Við erum að tala um heilbrigðis- og menntamál sem er stefna hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur og hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Þar af leiðandi eigum við að vinna eftir því en það kemur inn í nefndarálitið frá hv. fjárlaganefnd. Mig langar aðeins að heyra betur hvort ekki væri ástæða til að senda málið til dæmis aftur inn í nefnd eða, eins og hv. þingmaður sagði, til ríkisstjórnarinnar.

Annað atriði sem ég hef áhyggjur af í þessari ríkisfjármálaáætlun er samneyslan, þ.e. hversu mikið við ætlum að ráðstafa sameiginlega til tilfærslna á milli þar sem við notum kerfið til jöfnunar og til að tryggja að velferðarkerfið sé í lagi. Þarna er stefnt markvisst niður á við og við erum komin langt niður fyrir Norðurlöndin hvað varðar samneysluna og (Forseti hringir.) grunnútgjöld samfélagsins miðað við þessa áætlun.