144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:14]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek hjartanlega undir með hv. þm. Guðbjarti Hannessyni ef við ætlum að taka þetta alvarlega. Hann segir réttilega: Það er mikilvægt að við reynum að gera áætlun um komandi tíð. Ég er fullkomlega fylgjandi því þó að ég vilji ekki undirgangast þær kvaðir sem gert er ráð fyrir í frumvarpi til laga um opinber fjármál eins og það liggur fyrir, alls ekki. Ef við ætlum að reyna að sameinast um einhvern almennan ramma er grundvallarforsenda að um það hafi farið fram mjög rækileg og góð umræða. Ef það á að beita meirihlutavaldi til að ná þessu máli í gegn spyr ég um umræðuna sem farið hefur fram eða hefur ekki farið fram í stjórnarmeirihlutanum. Þarna eru pólitískar áherslur sem geta skipt sköpum um framhaldið ef menn ætla að bíta sig í rammann eins og hann liggur fyrir og þær forsendur sem hann byggir á.

Ég hef grun um að sú umræða hafi einfaldlega ekki farið fram. Þá er þetta bara eitt af þessum plöggum sem við fáum í hendurnar og er haldlítið plagg, hefur litla merkingu en ef menn ætla að láta það hafa merkingu og það hefur farið í gegnum þingið umræðulaust er það beinlínis orðið skaðlegt.

Ég ítreka tillögu mína um að þetta mál verði hreinlega dregið til baka. Það er ekki hundrað í hættunni hvað það snertir. Þetta er að vísu komið inn í þingskapalög að það á að setja fram einhvern ramma en við erum komin í vegferð sem er ógnvænleg (Forseti hringir.) að mínu mati ef við leggjum saman öll þau frumvörp sem ég hef vísað til.