144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:01]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum í síðari umr. tillögu til þingsályktunar um ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016–2019. Ég vil í upphafi máls míns segja að ég hef nokkrar efasemdir, annars vegar um þá áætlunargerð sem hér liggur fyrir og hversu góð hún sé sem áætlun og hins vegar um þá pólitík sem boðuð er í áætluninni. Ég ætla að fara yfir það hér.

Tilgangurinn með áætlunargerð af þessu tagi er samkvæmt þingskapalögum að færa fjárlagaferlið framar á árið og gefa Alþingi þar með betri tíma fyrir umfjöllun og stefnumörkun varðandi meginþætti fjárlagagerðarinnar. Þegar kemur að framlagningu fjárlagafrumvarps verður þegar búið að fjalla um þessar meginlínur ríkisfjármálanna. Þetta er í sjálfu sér jákvætt en þá þarf líka að vera hægt að treysta á áætlunargerðina eða finnast í það minnsta vera eitthvert hald í henni.

Í áætluninni kemur fram að þrátt fyrir að ýmis jákvæð teikn séu á lofti á öllum helstu sviðum ríkisfjármálanna séu veigamiklir óvissuþættir fyrir hendi. Þar er til að mynda bent á að mest muni um útkomu kjarasamninga sem og afnám fjármagnshafta þó að reyndar sé í áliti meiri hluta hv. fjárlaganefndar bent á að afnám hafta geti í raun haft bæði jákvæð og neikvæð áhrif á skuldastöðu og vaxtakostnað ríkissjóðs. Þarna eru sem sagt strax komnir gríðarstórir óvissuþættir inn í áætlunargerðina og kannski má segja hæstv. ríkisstjórn það til einhverrar vorkunnar að þetta eru stór mál og þannig kannski ekki endilega létt verk að ætla að gera áætlun um þetta. Ég tel samt að hér hefði átt að gera betur.

Þá eru gjöldin hér ekki flokkuð á einstök ráðuneyti eða málaflokka. Sú skipting mun ekki koma í ljós fyrr en með framlagningu fjárlagafrumvarpsins í haust en þar með verður svolítið erfitt að átta sig á því hvað plaggið kemur til með að þýða niðurdeilt á málaflokka.

Ég ætla að tæpa á nokkrum af þeim málum sem ég tel mikilvæg í þessari umræðu. Mörg hver koma fram í nefndaráliti minni hluta hv. fjárlaganefndar. Þar ber fyrst að nefna afkomu ríkissjóðs. Afkoma ríkissjóðs var jákvæð á árunum 2005–2008 um allt að 8% af vergri landsframleiðslu á milli ára, en við efnahagshrunið fór hún skarpt niður, eins og við þekkjum öll. Afkomubatinn á milli ára til ársins 2013 var mjög góður. Það tókst að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs sem var auðvitað frábært og mjög mikilvægt til þess að við gætum náð okkur á strik og rétt úr kútnum eftir kreppuna. Hins vegar er afkomubatinn á árunum 2013–2016 lítill og í þessari áætlun er gert ráð fyrir hægum vexti ár frá ári upp frá því.

Minni hluti hv. fjárlaganefndar bendir á að það þurfi að hafa í huga að áætluð afkoma ríkissjóðs á árunum 2016–2019 miðist við að afnám hafta muni ekki hafa nein áhrif á stöðu krónunnar. Ekki er reiknað með mögulegum áhrifum þess á skuldastöðu eða fjármagnsjöfnuð ríkissjóðs. Þá er ekki heldur gert ráð fyrir því að kjarasamningar komi til með að hafa veruleg áhrif á verðlagsbreytingar og vaxtastig.

Að sjálfsögðu vonar sú sem hér stendur að afnám hafta takist vel. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að áhrifin á stöðu krónunnar verði sem minnst. Ég spyr mig samt hvort ekki hefði verið betra að hafa svolítið borð fyrir báru og gera jafnvel ráð fyrir því að eitthvað geti tekist illa og hafa þá svigrúm til að bregðast við því enda segir í áliti minni hluta hv. fjárlaganefndar, með leyfi forseta:

„Ekki má mikið út af bregða svo að staða ríkissjóðs verði aftur neikvæð og skuldasöfnun hefjist að nýju.“ — Þetta eru varnaðarorð sem ég held að við verðum að taka mark á.

Varðandi afkomu ríkissjóðs bendir minni hlutinn einnig á það í nefndaráliti sínu að ef veiðigjöld hefðu ekki verið lækkuð, ef auðlegðarskattur hefði ekki verið lagður af og ef orkuskatti af stóriðju hefði ekki verið aflétt væri afkoma ríkissjóðs öll önnur og mun betri en raunin er. Þetta skiptir alveg gríðarlega miklu máli, þ.e. hvar og hvernig ríkið aflar sér tekna til að sinna innviðum samfélagsins. Það er grundvallaratriði ásamt því svo hvernig tekjunum er ráðstafað.

Í nefndaráliti minni hlutans segir að hann telji einsýnt að í stað þess að falla frá hinum ýmsu tekjuleiðum beri frekar að styrkja tekjuhliðina, einmitt til að svigrúm til niðurgreiðslu og fjárfestinga í innviðum verði mögulegt.

Það er alveg ljóst að það er mikil þörf á fjárfestingu eftir mörg ár í kjölfar hrunsins þar sem mjög hefur gengið á innviði samfélagsins. Það liggur alveg fyrir að það er mikil þörf á uppbyggingu, hvort sem við nefnum í heilsugæslu, samgöngum, vegakerfinu okkar eða hjúkrunarheimilum fyrir aldraða. Svo mætti auðvitaða lengi telja. Ég held að að almenningur á Íslandi sé orðinn svolítið langeygur eftir að sjá þess betri stað í uppbyggingu á innviðum samfélagsins að við séum komin út úr hruninu og að ríkið ætli að halda áfram að ráðstafa peningum í að treysta innviðina.

Varðandi launaforsendur er í ríkisfjármálaáætluninni miðað við að kaupmáttaraukning opinberra starfsmanna verði 2% á ári, þ.e. að árleg hækkun á meðallaunum verði ekki meira en 2% umfram verðbólgu. Sagt er að ef kjarasamningar gefi frekari hækkun verði því mætt með því sem kallað er viðeigandi gagnráðstafanir til lækkunar á launakostnaði, svo sem með samdrætti í starfsmannafjölda, vinnumagni og þess háttar. Líkt og minni hluti hv. fjárlaganefndar segir þýðir þetta á mannamáli að skorið verði niður í þjónustu ríkisins ef kjarasamningar gefa meira en 2% hækkun á kaupmætti. Minni hlutinn bendir jafnframt á að þar liggi heilbrigðiskerfið og menntakerfið einna helst við höggi.

Í áætluninni er gert ráð fyrir að bætur almannatrygginga hækki einungis um 1% umfram verðbólgu á árunum 2016–2019. Mér finnst mikið áhyggjuefni að þetta sé lagt til. Hæstv. fjármálaráðherra sagði í óundirbúnum fyrirspurnatíma fyrr í dag að batnandi hagur ríkissjóðs ætti að skila sér í batnandi hag almennings, en ég get ekki séð af þessari ríkisfjármálaáætlun að öryrkjar eða aðrir lífeyrisþegar teljist til almennings, enda sé gert ráð fyrir að kaupmáttarhækkun þeirra verði minni en annarra. Það tel ég ekki aukning.

Hæstv. ríkisstjórn vinnur þessa dagana og vikurnar að innleiðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ég vil bara minna á að mannsæmandi kjör eru partur af þeim sáttmála.

Samkvæmt áætluninni á einnig að einfalda tekjuskattskerfið á þann hátt að tvö neðri skattþrepin verði sameinuð í eitt. Í minnihlutaálitinu má lesa það að þessar breytingar séu hvorki útskýrðar nánar né hvaða áhrif þær muni hafa á einstaka tekjuhópa. Þar er gagnrýnt að í stefnumótunarplaggi eins og svona áætlun er séu þessi áform jafn óljós og raun ber vitni.

Þá er einnig bent á að samkvæmt þessari þingsályktunartillögu virðist ekki liggja fyrir nein áætlun um hvernig fjárfestingum skuli háttað. Það er nálega kómískt eða kannski frekar tragíkómískt að bent er á að hér, þar sem er verið að fjalla um stefnumótun ríkisstjórnarinnar sem felur í sér ný og óráðin verkefni, viti í rauninni enginn hver þau eru og því megi segja að stefnan liggi ekki fyrir í sjálfu stefnumótunarplagginu.

Ég tel að hafa megi áhyggjur af ýmislegu í þessari áætlun sem varðar velferðar- eða heilbrigðismálin. Minni hlutinn bendir á að af lestri ríkisfjármálaáætlunarinnar sé ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að ekki standi til að hefja byggingu nýs spítala fyrr en í fyrsta lagi árið 2020. Ég held að það sé ekki alveg í samræmi við það sem við öll eða að minnsta kosti flest okkar hér inni sem og almenningur vorum að vona að mundi gerast fyrr. Jafnframt er bent á að í tillögunni kemur fram að höfð sé hliðsjón af lýðfræðilegri þróun og innbyggðum kerfislægum vexti þar sem einungis er gert ráð fyrir 3% raunvexti í ellilífeyri og S-merktum lyfjum sem að mati minni hlutans þýðir að ekki standi til að taka inn ný S-merkt lyf á tímaskeiði áætlunarinnar þar sem kostnaður við upptöku á þeim væri meiri en það sem nemur þessari áætlun. Þetta held ég að sé okkur öllum sem þurfum að taka dýr en lífsnauðsynleg lyf mikið áhyggjuefni því að það hefur verið einn af kostum þess að búa á Íslandi í ágætisvelferðarsamfélagi, að þrátt fyrir að glíma við langvinna sjúkdóma hafa lífsgæði verið býsna góð. Ef það á að fara að hægja á því að innleiða ný lyf hefur það áhrif á lífskjör þeirra sem nota þurfa lyfin og getur meðal annars komið niður á atvinnuþátttöku þeirra sem verður minni sem og hreinlega getan til að taka þátt í samfélaginu, svo ekki sé minnst á áhrifin sem það hefur á andlega og líkamlega vellíðan þessara einstaklinga og fjölskyldna þeirra.

Til að draga saman það sem ég hef sagt tel ég að hér sé ekki um góða áætlunargerð að ræða, þar sem óvissuþættirnir séu einfaldlega of margir til að byggja á áætluninni vegna þess að hún er óljós, og svo hef ég áhyggjur af þeirri pólitík sem frumvarpið boðar, m.a. því sem lesa má á bls. 38 í frumvarpinu sjálfu um stefnumið um útgjaldaþróun. Þar segir að gengið sé út frá því stefnumiði að raunvöxtur útgjalda verði hægari en sem nemur raunvexti vergrar landsframleiðslu fram til ársins 2019, með leyfi forseta:

„Það felur í sér að hlutfall frumgjalda án óreglulegra liða af VLF lækki um 1%, eða úr 24,4% árið 2015 í 23,4% árið 2019.“

Þetta er sem sagt besti mælikvarðinn á það hver raunverulegur rekstur ríkisins er þannig að þetta þýðir á mannamáli að það á að draga saman í því hlutfallslega fjármagni sem er varið til reksturs ríkisins. Ég tel að fyrir velferðarsamfélag sem vill geta staðið undir nafni sé þetta einfaldlega allt of lágt hlutfall og þess vegna tel ég að við eigum hreinlega að búa til aðra og betri langtímaáætlun um ríkisfjármálin þar sem velferðarkerfið vegur þyngra og fær stærri hlut af heildarkökunni til sín.