144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:22]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að ríkisfjármálaáætlun til fjögurra ára sé gífurlega mikilvægt plagg. Þetta er í fyrsta skipti sem við ræðum hana hér. Við höfum ýmsar athugasemdir við hana, vildum að hún væri nákvæmari, skipt meira niður í ramma, á málaflokka og þar fram eftir götunum, en ég held að það megi líta fram hjá því af því að hún er lögð núna fram í fyrsta skipti og auðvitað mun rammi þessarar áætlunar eða hvernig hún er sett fram taka breytingum eftir því sem fram líður.

Það er alltaf erfitt að spá um framtíðina, sagði einhver spekingur einhvern tímann, og má vel taka undir það. Auðvitað er erfitt að áætla fjögur ár fram í tímann og við hljótum að gera okkur grein fyrir því að forsendur munu alltaf breytast eitthvað í fjögurra ára áætlunum.

Núna finnst mér hins vegar tvær meginforsendur liggja til grundvallar þessari áætlun, annars vegar kjarasamningarnir sem að hluta er búið að fá botn í og hins vegar þau skref sem voru kynnt í morgun um afnám fjármagnshaftanna. Þau eru vís til þess að breyta vaxtagreiðslum ríkissjóðs. Mér finnst þetta svolitlar meginforsendur þannig að mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hún geti verið sammála mér í því að fjárlaganefnd eigi að taka (Forseti hringir.) þessa áætlun núna inn og athuga þessar breyttu forsendur.