144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:27]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get svo sannarlega tekið undir að þessi ríkisfjármálaáætlun boðar ekki pólitískan fögnuð. Hún hefur þó þann kost ef svo má segja að hún sýnir mjög glöggt og jafnvel afhjúpar þá stefnu sem hæstv. ríkisstjórn er að marka. Líkt og ég sagði í ræðu minni hef ég verulegar áhyggjur af því að verið sé að draga saman í þeirri prósentu af vergri landsframleiðslu sem verja á til samneyslunnar á sama tíma og verið er að létta álögum af þeim sem best standa. Það felur í sér aukinn ójöfnuð þar sem byrðarnar dreifast þá með ósanngjörnum hætti og velferðarkerfið veikist.