144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:36]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur prýðisræðu. Við erum að ræða um ríkisfjármálaáætlun, þingsályktunartillögu sem hæstv. fjármálaráðherra lagði fram í samræmi við þingsköp Alþingis, í fyrsta sinn. Í fyrirliggjandi áætlun kemur skýrt fram sá umsnúningur sem hefur orðið á ríkisfjármálum á kjörtímabili þessarar ríkisstjórnar þar sem skuldasöfnunin var stöðvuð og viðnám skapað til þess að mynda grundvöll til að hefja niðurgreiðslu skulda. Í fyrra andsvari langar mig að spyrja hv. þingmann út í hlutverk ríkissjóðs gagnvart því að jafna sveiflur og vera í færum til þess að mæta áföllum. Hv. þingmaður kom mjög vel inn á aðdraganda hruns og ræddi jákvæða afkomu ríkissjóðs á árunum fram að hruni þrátt fyrir mikinn útgjaldavöxt. Sem betur var ríkissjóður skuldlítill, allt að því skuldlaus, og þess vegna í betri færum til að takast á við það áfall.

Nú er í þeirri ríkisfjármálaáætlun sem við erum að ræða hér lagt upp með að endurfjármagna ekki hluta af skuldsettum gjaldeyrisvaraforða en endurfjármagna önnur lán með hagstæðari vaxtakjörum. Uppsöfnuð vaxtagjöld frá hruni nema 580 milljörðum kr. þannig að það er býsna brýnt að ná viðsnúningi til að efla ríkissjóð til að vera í betri færum til að mæta framtíðaráföllum og ná niður vaxtagreiðslum sem koma til greiðslu hér á hverju ári.

Miðað við ræðu hv. þingmanns reikna ég með að við séum sammála um það hlutverk ríkissjóðs, en ég spyr um skoðun hv. þingmanns á því að nýta (Forseti hringir.) þá fjármuni sem verða til við sölu á hlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum til að greiða niður skuldir.