144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:38]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki alveg sammála hv. þingmanni um að viðsnúningurinn í efnahagslífi þjóðarinnar hafi orðið hjá þessari hæstv. ríkisstjórn eingöngu, heldur byrjaði hann mun fyrr. Hans sá auðvitað glöggt stað hjá fyrri ríkisstjórn, bara svo því sé haldið til haga, en afkomubatinn hefur sem betur fer enn aukist. Ég tel að við ættum að hafa svolitlar áhyggjur af því að í áætluninni er gert ráð fyrir því að núna hægi á afkomubatanum ár frá ári. Það hlýtur að vera eitthvað sem hæstv. ríkisstjórn sem og við óbreyttir þingmenn eigum að hafa í huga og hafa áhyggjur af. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, og er reyndar eitt af því sem ég kom ekki inn á í ræðu minni, um mikilvægi þess að greiða niður skuldir. Það skiptir gríðarlega miklu máli upp á alla framtíð.

Hvað varðar sölu á eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum verð ég hreinlega að viðurkenna að ég er ekki nógu vel að mér í því til að þekkja nógu vel hver væri annars vegar mögulegur söluhagnaður á móti því sem ríkið getur grætt á því að eiga hlut í þessum fjármálafyrirtækjum. Ég treysti mér (Forseti hringir.) þess vegna ekki hér og nú til að segja af eða á um hvað ég mundi telja skynsamlegast í því efni.