144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:43]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá góðu umræðu sem fram hefur farið um þetta mál. Það er mikið undir í þessu. Í ríkisfjármálaáætlun má gera ráð fyrir því að menn séu að leggja fram stefnumörkun til næstu ára í því með hvaða hætti tekjur og útgjöld eigi að þróast. Í því ljósi finnst mér þetta óskaplega götótt plagg, mjög margir þættir eru settir hér fram sem skilja ekki eftir sig svör við grundvallarspurningum heldur frekar að fleiri vakni. Ég hefði viljað að í að minnsta kosti nefndaráliti meiri hluta hefðu menn reynt að taka betur á því og fylla aðeins betur inn í þessa mynd en gert er. Þess vegna bendi ég fólki á að lesa nefndarálit minni hluta fjárlaganefndar sem þær hv. þingmenn Oddný G. Harðardóttir, Brynhildur Pétursdóttir og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir leggja fram vegna þess að þar eru helstu spurningarnar sem vakna við lestur þessarar ríkisfjármálaáætlunar dregnar fram og reynt að nálgast þær með einhvers konar svörum sem gera málið að mínu mati heldur verra.

Ég er mjög fylgjandi því og ánægð með það að menn skuli loksins hafa lagt þessa ríkisfjármálaáætlun fram þó að maður hefði auðvitað viljað sjá það gert í fyrsta lagi fyrr og í öðru lagi að það hefði líka verið fyllri mynd sem við hefðum fengið út úr þessari ríkisfjármálaáætlun. En svona er þetta og ég þakka þá aftur fyrir það minnihlutaálit sem hér liggur fyrir vegna þess að það finnst mér fara mjög vel yfir helstu álitamálin í þessu.

Mig langar aðeins í upphafi að nefna að ég á erfitt með að skilja ýmislegt sem hér kemur fram eins og til dæmis það hvernig menn sjá fyrir sér útgjaldaþróunina. Þegar menn skoða töfluna yfir þetta fjögurra ára tímabil um það hvernig útgjöldin eiga að þróast sést að heildarútgjöld á milli áranna 2016 og 2017 eiga samkvæmt þessu eingöngu að aukast um 1,2%. Hins vegar er í texta í kaflanum á bls. 35 um útgjaldaáætlunina á þessum árum, 2016–2019, fjallað um þær forsendur sem liggja að baki þessari áætlun. Þar er gert ráð fyrir að verðbólga verði á bilinu 2,5–2,7% á þessu tímabili. Sömuleiðis er gengið út frá því að kaupmáttaraukning opinberra starfsmanna verði 2% til viðbótar verðbólgu, þ.e. ofan á þessi 2,5–2,7%. Þá er líka fjallað um það að bætur almannatrygginga eigi að hækka um 1% umfram verðbólgu og eins segir á bls. 36 að almennt sé gert ráð fyrir 1% raunvexti í umfangi vel flestra rekstrarmálaflokka ríkisins, stjórnsýslu- og eftirlitsstofnana o.s.frv. Það stemmir ekki að eingöngu sé um að ræða 1,2% vöxt í útgjöldum miðað við samt sem áður allar þær hækkanir sem nefndar eru hér. Það á einhvers staðar að skera niður. Inn í þessa ríkisfjármálaáætlun vantar svör við spurningunni um hvar eigi þá að skera niður. Í tölunum hér er verið að boða talsvert mikinn niðurskurð en það er hvergi sagt frá því hvar hann eigi að eiga sér stað.

Ég hefði viljað að menn hefðu reynt að koma með grófa mynd af því hvar á að skera niður fyrir þessu þannig að útgjaldaramminn gæti staðist. Annars er að mínu mati betur heima setið en af stað farið og mér finnst að við eigum að taka ríkisfjármálaáætlun þegar við leggjum hana hér fram alvarlegar en svo að við skilum svona ófullbúinni mynd. Kannski getur einhver fulltrúi meiri hlutans skýrt þetta fyrir mér en miðað við það sem stendur í þessari áætlun stenst þetta ekki, þ.e. að þessi aukning í útgjöldum geti orðið. Það er gert ráð fyrir verðbólguáhrifum en samt er vöxturinn eingöngu 1,2% á milli þessara ára. Hann er hærri á milli annarra ára en það stingur svolítið í stúf og vekur athygli að þetta skuli vera svo lágt sem raun ber vitni 2016–2017 og líka vegna þess að það er gert ráð fyrir 1% aðhaldskröfu en hún nær samt ekki að vinna upp í þann mismun sem þarna er augljóslega á ferðinni. Mér þætti vænt um ef einhver gæti svarað mér því hvar þessi ríkisstjórn ætlar að skera niður á milli áranna 2016 og 2017.

Ég tek líka undir þá gagnrýni sem kemur fram hjá minni hluta fjárlaganefndar, gagnrýni á að ekki skuli liggja fyrir skýr stefnumörkun málefnasviða. Það birtist líka í þessari gagnrýni sem ég er að setja fram á að menn skuli ekki segja okkur hvar eigi að skera niður. Þá veit ég ekki hvað við erum í raun og veru að fjalla hér um. Þetta er einhver rammi en það vantar allt efni í hann. Þó eru hér dregin fram einstaka atriði sem við fáum að sjá að menn ætla beinlínis ekki að taka á eða ekki að ráðast í. Minni hlutinn fer ágætlega yfir það í minnihlutaáliti sínu eins og til dæmis með lífeyrisskuldbindingar, þar er dregið fram að ekki sé ljóst samkvæmt þessari áætlun hvort markmiðið sé að greiða þær niður með rekstrarafgangi eða fjármagna þær með lántöku. Þessar lífeyrisskuldbindingar eru að mestu leyti ófjármagnaðar.

Það sem stingur líka í augu er að við erum núna með gríðarlegar deilur á vinnumarkaði sem hafa staðið yfir og standa enn og það á ekki síst við opinbera starfsmenn sem með sanni má segja að hafi setið eftir í launaþróun undanfarinna ára og gera réttilega tilkall til leiðréttingar á sínum kjörum. Það á ekki síst við um stóru einsleitu stéttirnar, kvennastéttirnar. Hér er gert ráð fyrir því að það verði eingöngu gert ráð fyrir 2% hækkun á ári umfram verðbólgu á kaupmætti opinberra starfsmanna. Það má gera ráð fyrir því að þetta verði eitthvað hærra og þá eru menn aftur komnir í að það eigi að skera einhvers staðar niður. Hvar ætla menn þá helst að gera það? Það er svo margt hér sem sýnir okkur fram á að það eigi að fara að skera niður en við fáum ekkert að vita hvar. Þá er eðlilegt að við þurfum að hafa áhyggjur af stóru málaflokkunum eins og heilbrigðiskerfinu og því að menn ætli að ráðast aftur í hækkun á gjöldum. Þetta er sorgleg staða vegna þess að á sama tíma og menn boða í þessu töluverðan niðurskurð á ríkisútgjöldum hafa menn afsalað sér tekjum af auðlegðarskatti og veiðigjöldum eins og ágætlega var farið yfir hér áðan. Það nýjasta er að menn ætla að afsala sér tekjum af raforkuskatti. Mér þykir þetta röng forgangsröðun, og okkur jafnaðarmönnum svíður þetta vegna þess að við teljum núna gríðarlega mikla og ríka ástæðu til að fara í mikilvæga uppbyggingu á stefnumörkun á velferðarkerfinu og menntakerfinu og við erum líka að ræða samgöngurnar.

Þá komum við að því sem ég hef líka töluverðar áhyggjur af og við jafnaðarmenn. Minni hlutinn fjallar ágætlega um það í sínu nefndaráliti, það að eingöngu er gert ráð fyrir að um 1,2% af vergri landsframleiðslu fari í fjárfestingar samkvæmt þessari áætlun. Það er allt of lágt. Það kemur vel fram í nefndaráliti minni hlutans að þarna er um að ræða fjárfestingu hins opinbera í heild, þ.e. líka sveitarfélög, að það sé algjörlega ljóst að hún dugi ekki til þess að endurnýja og viðhalda innviðum og öðrum verðmætum sem við höfum byggt upp í gegnum tíðina. Ef við náum ekki að endurnýja og viðhalda því með þessum fjármunum náum við heldur ekki að ráðast í nýframkvæmdir að neinu marki. Þetta veldur því að við munum sjá gríðarlega hnignun hvað varðar innviðina á komandi árum ef menn ætla að halda sig við þessa áætlun. Ég tel að þarna séu menn á rangri braut. Menn hefðu átt að halda í þær tekjur sem þeir hafa verið að afsala sér hingað til á síðustu tveimur árunum. Ég geri ráð fyrir því að ef kjósendur yrðu spurðir vildu þeir heldur sjá þessa fjármuni setta í heilbrigðiskerfið, uppbyggingu á samgöngukerfinu og í menntakerfið. Öflugar samgöngur þjóna byggðunum best, öflugt heilbrigðiskerfi, öflugt og aðgengilegt menntakerfi með lágum gjöldum gagnast þeim best sem lægstar hafa tekjurnar. Fókusinn hjá þessari ríkisstjórn hefur verið að lækka álögur á þá sem mest hafa og við sjáum niðurstöðurnar af því í þessari ríkisfjármálaáætlun.

Virðulegi forseti. Þá verð ég að segja að það hryggir mig og okkur að það er algjörlega ljóst að líka er verið að ýta á undan sér vandanum í heilbrigðiskerfinu sem snýr að húsbyggingu. Það hefur verið talað um það núna í meira en áratug að það komi að krítískum tíma í byggingum og húsnæði Landspítalans og við erum komin á þann tíma. Þar er mygla, húsið lekur og menn geta ekki tileinkað sér nýjustu tækni með tækjum og tólum inni á sjúkrahúsi vegna þess að byggingin hentar ekki. Hún er barn síns tíma. Hér er ekki gert ráð fyrir því að menn ráðist í þessa byggingu á komandi árum heldur er sett allt of lítið fjármagn í þetta. Það er gert ráð fyrir því að ljúka við byggingu sjúkrahótels, ljúka fullnaðarhönnun á meðferðarkjarnanum o.s.frv. Þetta er að mínu mati ekki fullnægjandi. Ég held að það sé mikið óráð að ætla að fara svona hægt í sakirnar og ýta þessari spítalabyggingu á undan sér vegna þess að við erum komin á krítískt tímabil núna. Hvernig halda þá menn að það verði hér eftir fimm ár? Það verður orðið enn þá verra þá og þá mun líka taka tíma að byggja þetta upp. Ég hef áhyggjur af heilbrigðiskerfi okkar núna þegar við horfum upp á það að vegna þess að menn hafa ekki verið tilbúnir að ræða við hjúkrunarfræðinga, geislafræðinga og aðra þá sem eru innan BHM erum við farin að sjá uppsagnir stórra hópa innan heilbrigðiskerfisins. Með þeim fer þekking og reynsla og ég er hrædd um að við séum núna komin inn í spíral þar sem við munum sjá mjög hraða hnignun á heilbrigðiskerfinu í heild. Starfsfólkinu okkar sem er á heimsmælikvarða er ekki búin aðstaða með tækjum og húsnæði til að gera sitt besta og það er óviðunandi staða í þjóðfélagi eins og okkar.

Ég mundi leggja það til að við reyndum nú að ná samstöðu um það þverpólitískt að taka utan um heilbrigðiskerfið í landinu og finna í sameiningu leiðir til að byggja það upp. Ég vona að menn séu tilbúnir í það af hálfu stjórnvalda en það þýðir þá að við getum ekki farið eftir þessari ríkisfjármálaáætlun næstu fjögur árin heldur munum við þurfa að gera á henni verulegar breytingar. Menn munu þá kannski þurfa að horfa til fjármögnunarleiða sem menn hafa verið að losa sig við á undanförnum árum.

Varðandi almannatryggingarnar þykir mér líka mjög sorglegt að sjá hér ekki gert ráð fyrir sambærilegum hækkunum í almannatryggingum og menn gera ráð fyrir í kaupmáttaraukningu hjá opinberum starfsmönnum. Það skiptir máli núna þegar við sjáum flesta hópa í landinu vera að semja um kjarabætur og þá er það skylda okkar á Alþingi að gæta þess að þeir sem þurfa að stóla á tekjur frá hinu opinbera í gegnum almannatryggingakerfið fái sambærilegar hækkanir. Við getum ekki skilið þessa hópa eftir og það er í engu gert ráð fyrir því í þessari áætlun. Það þykir mér miður og þarna sýnir ríkisstjórnin á spilin, sýnir hvað hún ætlar sér að gera á næstu missirum. Samkvæmt þessu ætlar hún ekki að láta þessa hópa fylgja launaþróun í landinu. Það þykir mér miður og ég heiti því að fyrir því munum við jafnaðarmenn berjast hér á næstu missirum, við munum halda áfram að berjast fyrir því að þessir hópar fái þær hækkanir sem þeir þurfa á að halda ef þeir eiga að fá að geta lifað í okkar samfélagi með einhverri reisn.

Þá ætla ég líka að nefna að ýmislegt hér stingur í augu. Ein af forsendum í tekjuhlutanum í þessari áætlun er sala á bönkum. Hér er gert ráð fyrir því að 30% hlutur í Landsbankanum verði seldur, ef ég man rétt, og síðan stendur í nefndaráliti meiri hlutans að í áætluninni komi fram að uppsöfnuð vaxtagjöld ríkissjóðs frá bankahruni á verðlagi ársins 2015 nemi um 580 milljörðum kr. Því sé brýnt að selja eignarhluti í fjármálafyrirtækjum og öðrum félögum auk þess að endurfjármagna ekki hluta af skuldsettum gjaldeyrisforða heldur endurfjármagna önnur lán ríkissjóðs með hagstæðari kjörum en nú er gert.

Þetta er líka óútskýrt. Hvað er verið að tala um önnur félög, hvað eru menn beinlínis að tala um? Það er gert ráð fyrir því í ríkisfjármálaáætluninni að þessir eignarhlutir í Landsbankanum verði seldir á þessu ári og því næsta. Eru einhverjar vísbendingar um að það geti náðst? Hér hefur ekkert heyrst um það að menn geti selt banka á þessu ári. Undirstöðurnar undir þessari ríkisfjármálaáætlun eru svo veikar.

Ég verð að nefna það líka að það er ekkert samband við raunveruleikann í þessari áætlun. Ég er undrandi á því að Framsóknarflokkurinn sem ályktaði nýlega á flokksþingi sínu gegn sölu Landsbankans skuli leggja jafn mikla áherslu á það hér að nú sé nauðsyn að gera það á þessu ári eða því næsta til að geta fengið tekjur í ríkissjóð. Ég er ekki ósammála markmiðinu, við verðum að lækka vaxtagjöld ríkissjóðs, en menn verða að hafa einhverjar raunhæfar áætlanir um það hvenær og hvernig menn geta selt eignir til þess. Þá þarf líka að skýra almennilega frá því hvaða eignir það eiga að vera.

Það er margt í þessu sem mér finnst frekar vekja spurningar en að svara þeim og þá langar mig að koma aðeins að bls. 34 sem er stefnan í skattamálum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Endurskoðun virðisaukaskattskerfisins verður einnig haldið áfram með það fyrir augum að færa kerfið í einfaldara og nútímalegra horf og styrkja það sem tekjuöflunartæki.“

Á íslensku, þ.e. þýtt yfir á það með hvaða hætti stjórnarflokkarnir hafa hagað sinni skattstefnu, þýðir þetta að menn ætla að hækka matarskattinn meira og líklega búa til eitt skattþrep þannig að þeir lækka efra þrepið og hækka þá neðra þrepið töluvert. Þarna kemur enn og aftur fram munurinn á stefnu þessarar stjórnar og stefnunni sem við jafnaðarmenn vildum fylgja, sá að það eru lækkaðir eða afnumdir skattar á þá sem hafa hæstar tekjurnar en skattar eru hækkaðir á þá sem nota mest af tekjum sínum í að greiða fyrir nauðsynjar. Ég verð að segja að þetta þykja mér ekki góð tíðindi. Við jafnaðarmenn munum mótmæla þessu harðlega eins og öðru því sem felur í sér að menn auki álögur á þá sem lægstar hafa tekjurnar og millitekjuhópana til að rýmka fyrir skattalækkunum og léttingu álaga á þá sem hafa hæstar tekjurnar. Hér er verið að því og ef menn lesa þessa ríkisfjármálaáætlun sést stefnan mjög vel.

Virðulegi forseti. Ég næ ekki að fara yfir allt núna en geri það kannski síðar. Það kemur ágætlega fram í minnihlutaáliti fjárlaganefndar hversu ósamstiga ráðherrar í þessari ríkisstjórn eru (Forseti hringir.) vegna þess að hér er ekkert sem styður við frumvörp sem hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hefur boðað.