144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:07]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum í síðari umr. um þingsályktunartillögu þannig að þetta er lokaumræðan. Ég teldi eðlilegt að menn gerðu hlé á umræðunni, vísuðu tillögunni aftur til nefndar og færu yfir hana þar til að skoða áhrif þeirra aðgerða sem kynntar voru í morgun, til að fara líka yfir áhrif nýgerðra kjarasamninga og fleiri slíkra þátta. Mér finnst ekki gott að við samþykkjum ríkisfjármálaáætlun þegar við vitum að svo margt í umhverfinu hefur breyst frá því að hún var lögð fram og er ekki í miklum takti við veruleikann. Margt af því er líka reifað í nefndaráliti minni hlutans og ég vildi að meiri hluti nefndarinnar hefði hlustað betur á það sem þar kemur fram. Svo kemur það sem hv. þingmaður nefnir líka ofan á það.

Ég teldi það eðlilegt vegna þess að það er miklu heillavænlegra að menn leggi af stað með samþykkta ríkisfjármálaáætlun frá Alþingi sem er í einhverjum takti við það sem er raunverulega að gerast og er fyrirsjáanlegt að muni gerast á komandi árum. Við höfum töluverðar (Forseti hringir.) upplýsingar sem við getum byggt á.