144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:10]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður fagna ég því að menn séu að fara af stað fyrir norðan. Það er verulegt fagnaðarefni, ekki bara fyrir það svæði heldur fyrir landið allt, að það sé komin af stað svona öflug fjárfesting. Ekki veitir okkur af. Margir hafa komið að því og mikil vinna liggur þar að baki.

Hv. þingmaður spyr einmitt um kjarna málsins og þá veltir maður fyrir sér tilgangi svona þingsályktunartillögu. Tilgangurinn hlýtur að vera að menn eigi að nota hana til viðmiðunar við fjárlagagerðina á komandi árum. Miðað við það sem við erum með í höndunum, miðað við gagnrýnina frá minni hlutanum sem kemur á hana um öll þau atriði þar sem liggja lausir endar plús þau atriði sem hafa verið nefnd hér, þ.e. afnám hafta og áhrif þess, uppgjör þrotabúanna og síðan aftur gerð kjarasamninga, er mér algjörlega orðið ljóst að þetta plagg verður ekki til viðmiðunar á næstu árum. Það er ekki hægt að nota það.