144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:11]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað ættu aðstandendur málsins fyrst og fremst að sjá að sér með það og kalla það til baka úr því að hv. fjárlaganefnd flýtti sér svona með afgreiðslu á þessu út og leggur til samþykkt tillögunnar algerlega óbreyttrar þó að margt hafi gerst frá því að hún kom fram og meira sé í vændum. Á miðvikudaginn er vaxtaákvörðunardagur hjá Seðlabankanum. Flestir greiningaraðilar reikna með 50 punkta hækkun vaxta. Það hefur strax áhrif á fjármagnskostnað ríkisins ef það fer út yfir vaxtaganginn, a.m.k. til skamms tíma. Ef síðan gerast þau undur og stórmerki í tengslum við afnám hafta eða öllu heldur nauðasamninga að ríkið geti lækkað verulega skuldbindingar sínar og sleppi með minni vaxtakostnað á komandi árum gleðjumst við öll auðvitað yfir því og þá kemur það á móti.

Það er eiginlega allt á flugferð í kringum þetta mál og það hlýtur að vera mjög áleitin spurning af hverju aðstandendur málsins kalla ekki einfaldlega tillöguna til baka og viðurkenna að það er gagnslaust að afgreiða hana eins og hún er.