144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:26]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki séð hér, a.m.k. ekki síðan ég kom hingað, forustu hv. fjárlaganefndar í salnum. Mér þætti mikilvægt að forustumenn hennar kæmu hingað og færu yfir það með okkur hvers vegna við ættum ekki að taka tillöguna aftur inn í nefndina og fara yfir þær vendingar sem orðið hafa bæði á vinnumarkaði og líka hvað varðar þrotabúin og uppgjör þeirra. Það breytir öllu málinu og var það nú götótt fyrir. Núna erum við að fara að samþykkja hugsanlega einhverja ríkisfjármálaáætlun sem er ekki í neinum takti við neinn veruleika þarna úti.

Ég verð að segja að mér þætti það til vansa fyrir þingið ef við gerðum það. Við erum alveg til í að taka snúning á þessu máli og reyna einhvern veginn að uppfæra það og færa það til veruleikans. Ég held að forustumenn nefndarinnar ættu að koma hingað (Forseti hringir.) og segja okkur hvernig þeim líst á að fara að samþykkja þingsályktunartillögu sem augljóslega verður ekki farið eftir vegna þess að hún stenst ekki.