144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:29]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hér var sagt síðast. Það eitt að taka málið inn aftur til að fara yfir forsendurnar held ég að sé afar mikilvægt. Þó að þetta sé áætlun breytir það því ekki að hér eru undir stefnumarkandi atriði sem þarf að fara yfir. Það er auðvitað bragur að því þegar verið er að leggja svona fram í fyrsta sinn að það er ekki búið að afgreiða málið, það er orðið áliðið, komið fram í júní, þannig að það er augljóst að það fer að þrengjast um að þetta geti gengið eftir með þeim hætti sem hér er lagt upp með.

Ég held að það væri skynsamlegt að við færum yfir afnám hafta, þær tillögur sem hér voru lagðar fram í morgun og hvaða áhrif þær hafa, en ekki síður auðvitað tilkynningar sem fólust í aðkomu ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum. Þær breyttu málinu strax og ég held að ríkisstjórnarflokkarnir verði að gera sér grein fyrir því hvað þeir eru að fara að samþykkja. Þó að áætlun sé einungis áætlun en ekki eitthvað sem ekki má breyta (Forseti hringir.) er hér brostið algjörlega það sem hún byggir á.