144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Auðvitað er ég ekki hér frekar en aðrir að tala um fundarstjórn forseta. Það er búið að misnota þennan lið þannig en hér eru nú allt saman byrjendur á þingi eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, hv. þm. Össur Skarphéðinsson og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem hafa kvartað undan því að hér sé ekki neinn úr forustu nefndarinnar.

Ég er búinn að vera í þinginu eins og menn vita og ég er búinn að heilsa nokkrum ykkar, hef setið í hliðarsal og fylgst með ræðunum. Ég hlustaði á góð andsvör hjá hv. þm. Hjálmari Boga Hafliðasyni sem mér fannst fara ágætlega yfir og kom með málefnalegar og góðar spurningar til hv. þingmanns.

Ég veit ekki hvað maður á að segja. Það eru tvær leiðir í þessu. (Gripið fram í.) Annars vegar geta menn bara tekið eftir því hverjir eru í þinghúsinu og kannað hvort svo sé. (Gripið fram í.) Ja, fram til þessa hefur ekki verið gerð sú krafa að þingmenn séu í þingsal. (Gripið fram í.) Það er eðlilegt að menn fylgist með umræðunni. Það er ég búinn að gera. Ég er á mælendaskrá og (Forseti hringir.) mun taka virkan þátt í þessu. Menn þurfa ekki að hafa áhyggjur af því.