144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:43]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Segulmagn þessa salar hefur aukist snöggtum eftir að hv. þm. Hjálmar Bogi Hafliðason tók hér sæti [Hlátur í þingsal.] þannig að hann þarf ekkert að undrast það þó að menn þyrpist hingað inn þegar líkur eru á að hann taki aftur til máls.

Hitt er mála sannast að forsendur hafa breyst með þeim atburðum sem gerðust í dag. Þessi tillaga hentar einfaldlega ekki þeim veruleika, hún þarfnast breytinga. Það þarf að skoða áhrif þess og þá eru það tveir aðilar sem koma til greina til að skýra það fyrir þinginu, annaðhvort hæstv. fjármálaráðherra eða forusta fjárlaganefndar. Maður spyr sjálfan sig: Telur hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson að hann sé varaformaður fjárlaganefndar upp á punt? Er það ekki hans hlutverk að koma hingað og skýra þetta út fyrir okkur? Ef hv. þingmaður getur það ekki er óhjákvæmilegt að taka málið inn í nefnd og skoða það þar. En ég vænti þess að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson leysi þetta mál með því einfaldlega að setja sig á mælendaskrá (Forseti hringir.) (GÞÞ: Ég er á mælendaskrá.) og skýra þetta út fyrir þingheimi. (Gripið fram í: Hann er á mælendaskrá.) Þá skora ég á hæstv. forseta, til að greiða fyrir þingstörfum, að hleypa hv. varaformanni framar í röð mælenda. (Gripið fram í.)