144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:46]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég held að þingið sé í ákveðnum vanda og stjórnvöld líka ef þessi þingsályktunartillaga verður samþykkt óbreytt vegna þess að meðal annars stendur í henni:

„Alþingi ályktar […] að stjórnvöld fylgi stefnumörkun um ríkisfjármál fyrir árin 2016–2019 samkvæmt eftirfarandi yfirliti um áformaða afkomu- og skuldaþróun þar sem fram kemur áætlun um tekjuöflun ríkisins og meginskiptingu útgjalda (ramma) fyrir fjárlagaárið 2016 og næstu þrjú ár þar á eftir á grundvelli þeirra forsendna sem ríkisfjármálaáætlunin er reist á.“

Af hverju eru stjórnvöld bundin ef við erum búin að samþykkja í þessum þingsal forsendurnar og tölurnar sem eru í töflunni? Mega þau velja sér? Eru það útgjöldin eða hvernig á þetta eiginlega að vera þegar við vitum að forsendurnar eru svo mikið breyttar nú þegar?