144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:48]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Við þingmenn erum núna að kynna okkur tvö frumvörp sem lögð voru fram í dag sem liður í áætlun um losun fjármagnshafta. Þau eru ólíks eðlis, annað er um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki en hitt varðar frumvarp til laga um stöðugleikaskatt. Það þarf ekki annað en aðeins að líta á umsögn fjárlagaskrifstofunnar til að sjá að áhrifin af þessu á ríkissjóð og mögulegan efnahagsstöðugleika verða umtalsverð. Það er rétt að taka málið sem nú er á dagskrá af dagskrá og gefa fjárlaganefnd tækifæri til að afla nánari upplýsinga fyrir okkur til að við höfum glögga mynd af því.

Við þekkjum sleifarlagið í efnahagsstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í fortíðinni og viljum ekki að það endurtaki sig.