144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:50]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er svo eðlileg krafa að málið sé tekið aftur inn í nefnd þegar, eins og hefur komið fram í máli annarra þingmanna, Alþingi á að álykta samkvæmt þessu. Alþingi ályktar að stjórnvöld fylgi stefnumörkun um ríkisfjármál fyrir árin 2016–2019 á grundvelli þeirra forsendna sem ríkisfjármálaáætlunin er reist á, á grundvelli þessa plaggs. Við vitum öll að þessar forsendur standast ekki þannig að það er eðlilegast í heimi að þetta sé bara tekið inn í nefndina og við sjáum hvernig málið þróast í kjölfar þessara skuldaleiðréttingarfrumvarpa o.s.frv. Við skulum fá gesti. Það er ekkert eðlilegra en að við fáum gesti sem við fengum ekki, fáum umsagnir sem við fengum ekki. Það var ekki gert en það er ekkert eðlilegra fyrir góð og ábyrg vinnubrögð þegar kemur að ríkisfjármálaáætlun. Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn í alvörunni að vera með svona sleifarlag þegar kemur að ríkisfjármálaáætlun? Hún hefur markmið, með leyfi forseta:

„Meginmarkmið ríkisfjármálastefnunnar er að stuðla (Forseti hringir.) að efnahagslegum stöðugleika og meiri framleiðslugetu hagkerfisins samhliða áframhaldandi afkomubata í ríkisrekstrinum …“