144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:52]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég verð að segja að ég er mjög hugsi yfir þeirri umræðu sem hér stendur yfir. Við erum að tala um það að jafnaði að við viljum tryggja góð og vönduð vinnubrögð að því er varðar þingmál. Hér liggur fyrir, og ég hef ekki heyrt neinn andmæla því, að forsendur hafa breyst að því er varðar þetta tiltekna þingmál. Er einhver sem ætlar að andmæla því? Ætlar hv. þm. Hjálmar Bogi Hafliðason að andmæla því? Ætlar Guðlaugur Þór Þórðarson að andmæla því? Er einhver annar hér frá stjórnarflokkunum? Nei, oftast eru fáir hér frá stjórnarflokkunum.

Er það gott að við umgöngumst þingið og þingmál af þeirri léttúð að okkur finnist ekki mikilvægt að málin séu eins vel útbúin og nokkurs er kostur? Eru það vinnubrögð sem hæstv. ríkisstjórn og stjórnarflokkarnir vilja viðhafa? Ég hélt ekki. Er einhver sem ætlar að andmæla því að hér sé um gjörbreyttar forsendur að ræða og gríðarlega mikil áhrif á ríkissjóð? Ef einhver vill (Forseti hringir.) andmæla því vil ég endilega heyra það en meðan sú fullyrðing liggur hér í loftinu verður að taka málið á dagskrá og aftur inn í nefnd. En ekki hvað?