144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[19:10]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fyrst benda á að á bls. 18 í ríkisfjármálaáætluninni er mjög góð mynd með súlum sem sýnir afkomu ríkissjóðs frá 2005 til 2019. Þar eru sýndar súlur sem eru háar, í plús, rétt fyrir hrun og síðan fara þær langt niður fyrir mínusinn. Það sést líka sá árangur sem náðist á síðasta kjörtímabili, að það náðist að loka 216 milljarða kr. gati sem er ótrúlegur árangur í raun. Þessi mynd sýnir vel hversu gott bú það var sem hægri stjórnin tók við og því eru það náttúrlega vonbrigði hvernig er farið með þann árangur og í hvað sá árangur er nýttur.

Varðandi aga í ríkisfjármálum getum við bara horft á síðasta fjáraukalagafrumvarp. Þar var líka mynd sem sýndi að það var enginn agi fyrir hrun. Við náðum aga á síðasta kjörtímabili en þurfum að gera enn betur til að (Forseti hringir.) verða svipuð og nágrannaþjóðirnar sem við viljum bera okkur saman við.