144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[19:17]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé full ástæða til að taka málið inn í nefndina aftur, kalla þá hæstv. fjármálaráðherra til og fara yfir það með honum hvernig hægt sé að gera bót á þessari áætlunargerð. Ég trúi því ekki að meiri hluti fjárlaganefndar og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra vilji í raun að svona plagg, sem er eins gagnslítið og það er orðið, fari í samþykkt í þinginu með allar þessar stóru spurningar útistandandi. Á hverju eigum við að taka mark? Hvað er verið að samþykkja? Af hverju eru stjórnvöld bundin þegar við vitum um alla þessa stóru óvissuþætti? Það er varla nokkur tala í frumvarpinu sem stendur eftir þannig að það er full ástæða til að kalla málið inn. Ég er bara ekki nógu flink í þingsköpunum til að vita hver það er, hvort ég geti beðið um það og að það verði þá gert. Frú forseti þarf að útskýra fyrir mér á eftir hvernig við getum farið að.