144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað einnig til að lýsa ánægju minni með þær aðgerðir sem kynntar voru í gær. Aðgerðaáætlun um afnám hafta var sem sagt kynnt í gær og það er mjög ánægjulegt að heyra þá þverpólitísku sátt sem er hér um málið. Sérstaklega ánægjulegt er að sjá hv. þingmenn Samfylkingarinnar taka mjög jákvætt í þessar aðgerðir, m.a. vegna þeirra orða sem hv. þm. Árni Páll Árnason lét falla um yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra er vörðuðu afnám hafta. Fyrir akkúrat tveimur mánuðum sagði hann í viðtali við Eyjuna að yfirlýsing Sigmundar á flokksþingi Framsóknarflokksins væri vandræðaleg og það væri glapræði að hleypa slíkri ævintýramennsku í gegn. Í frétt sem birtist í DV í kosningabaráttunni fyrir um tveimur árum sagði sami hv. þingmaður að afnám hafta væri líklega ómögulegt án upptöku evru. Á fésbókarsíðu hv. þingmanns í gær var hægt að lesa ummæli þar sem hann gagnrýndi verk Framsóknarflokksins í ríkisstjórn undanfarin tvö ár.

Ég vil samt áður lýsa ánægju með þá þverpólitísku sátt sem virðist vera í málinu og ég trúi ekki öðru en að flestallir styðji það.

Hér er um að ræða, eins og hefur margoft komið fram í umræðunum, tvær leiðir sem er um að velja fyrir slitabúin og áætlað er að þær leiðir geti skilað um 850 milljörðum. Við framsóknarmenn erum afar ánægð með þessar niðurstöður því að í kjölfar síðustu kosninga var formaður Framsóknarflokksins, hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sá eini sem talaði fyrir því að þetta svigrúm væri raunverulega til staðar. Síðan þá og þar til aðgerðirnar voru kynntar hafa heyrst háværar efasemdaraddir um að þetta gæti gengið eftir. Gaman var að heyra umræður í fjölmiðlum í gær þar sem menn voru að rifja upp kosningabaráttuna og talsvert var talað um að hann hefði verið sá eini sem hefði þorað að ræða þessa hluti.