144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

störf þingsins.

[10:42]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er mjög ánægjulegt að það ríkir þverpólitísk samstaða um áform um afnám fjármagnshafta. Mér dettur nú í hug: Allir vildu Lilju kveðið hafa. Það er svolítið þannig að nú koma menn fram og vilja eigna sér það að hafa tekið af skarið með afnámi gjaldeyrishafta. Þannig er það ekki, öll eigum við svolítið í því. Mig langar að vitna í dægurlagatexta með Baggalút, með leyfi forseta: „Við gerum ekki rassgat ein.“

Það er ekkert flóknara en það. Við þurfum öll að leggjast á árar eins og kemur fram í sama texta. Þannig hefur það verið frá því að fjármagnshöftin voru sett á árið 2008 með neyðarlögum, sem var auðvitað upphafið að því að þess þurfti. Síðan tekur önnur ríkisstjórn við og hún vinnur í þessum málum með sérfræðingum og leggur sig alla fram og nær að draga slitabúin inn fyrir gjaldeyrishöftin, sem er stór áfangi því að annars hefði ekki verið hægt að fara út í þær aðgerðir sem við erum að fara út í núna. Síðan heldur þessi ríkisstjórn áfram vinnu frá fyrra kjörtímabili og núna liggja fyrir áform sem mér sýnist að öllum lítist ágætlega á. Við eigum að halda áfram þeirri samstöðu en vera ekki eins og hani á hrauk að gagga hver hafi gert mest í þeirri erfiðu vinnu sem við sem samfélag þurfum að vinna. Það er mjög gott. Við þurfum nefnilega oft að hugsa þannig að við gerum ekki rassgat ein. Við þurfum að sýna samstöðu og ég er ánægð með samstöðuna um losun fjármagnshafta.