144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég fagna eins og aðrir fram komnum hugmyndum um losun fjármagnshafta og ég verð að segja eins og er að ég hlakka til að vinna með öllum hér á þingi að þessu máli, vegna þess að það hefur verið svo mikið af deilum upp á síðkastið að mann er farið að þyrsta í eitthvað sem við getum öll verið sammála um að sé jákvætt markmið. Sömuleiðis líta hugmyndirnar vel út, alla vega í fljótu bragði og með þeim fyrirvara að við eigum eftir að ræða þetta allt saman.

En ég verð að segja það að ég hef smááhyggjur af íslensku samfélagi og íslenskum efnahag, vegna þess að þegar við verðum búin að losa um fjármagnshöftin, sem allir eru sammála um að þurfi að gera, þá óttast ég að við horfum aftur fram á tíma ákveðinnar óráðdeildar. Ég vil meina að Íslendingar séu eiginlega nýskriðnir úr fjárhagslegum torfkofum, að við sem þjóð þekkjum fjármál mjög illa, ekki bara þingmenn heldur líka bankamenn og líka almenningur. Og það finnst mér vera mjög alvarlegt vandamál, í raun og veru er alvarlegasta efnahagsvandamál þjóðarinnar það hvernig Íslendingar, þingmenn, bankamenn og allir í samfélaginu líta á peninga og fjármagnskerfið.

Núna sé ég frétt t.d. á hringbraut.is þar sem kemur fram að flestar ef ekki allar bílasölur eru farnar að bjóða upp á 100% bílalán, sem hljómar einhvern veginn æðislega vel, að fá lánaðan heilan bíl, en það er ekki endilega góð hugmynd. Ég óttast að Íslendingar fari aftur að líta á lán sem ókeypis peninga og atkvæðaseðla sem lottómiða, ég óttast það mjög og ég vara við því. Við verðum öll sem þjóð, og ég ítreka ekki sem þing og ekki sem bankakerfi heldur sem þjóð, að skilja þau kerfi sem við heimtum að séu réttlát. Það augljósasta við framtíðina er það sem við gleymum kannski oftast, sem er að hún kemur. Hún kemur. Og við verðum að skilja hvað er í vændum.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.