144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

störf þingsins.

[10:58]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það gætir einhvers misskilnings hjá hv. þingmanni þegar hann er í sinni lokaspurningu, ég geri ráð fyrir því að hann sé þá að tala niður krónuna. Staðreyndin er sú — þó að maður geti haft ýmsar efasemdir, það eru augljósir gallar við íslensku króna — að við hefðum aldrei getað farið í alla þessa hluti nema vegna þess að við höfðum okkar eigin gjaldmiðil.

En það er ánægjulegt að sjá að við séum búin að ná þessari niðurstöðu. Það er gott að heyra, þegar maður hlustar á hv. stjórnarandstæðinga, að þeir virðast styðja aðgerðirnar og lýsa yfir samstöðu með þeim. Það er mjög ánægjulegt. En þetta er bara eitt skrefið, mjög ánægjulegt skref. Það skiptir hins vegar miklu máli að við náum samstöðu um það sem fram undan er.

Næsta skref er það að mínu áliti að við eyðum ekki þessum fjármunum, því svigrúmi sem þarna skapast, í annað en að greiða niður skuldir. Bara vaxtagreiðslur munu lækka um 30 þúsund milljónir við þessa aðgerð hjá ríkissjóði. Það er gríðarlega há fjárhæð. En betur má ef duga skal.

Ég vona að við förum að ræða frumvarp um breytingar á opinberum fjármálum þannig að við getum farið yfir það hvort við náum ekki samstöðu um að breyta umræðuhefðinni og vinnulaginu þegar kemur að fjárlögum. Það snýr ekki bara að okkur hér í þessu húsi, það snýr líka að fjölmiðlum og almenningi.

Á sama hátt vonast ég til þess að við förum í rólegheitunum yfir það hvernig þau lönd sem við viljum bera okkur saman við, nánar tiltekið Norðurlöndin, vinna bæði opinberu fjármálin og sömuleiðis hvernig þeir haga sér í vinnudeilum. Ef við gerum það af yfirvegun held ég að við getum náð afskaplega góðri samstöðu þvert á flokka og byggt á þeim mikla árangri sem þessi ríkisstjórn hefur náð. Hennar (Forseti hringir.) verður minnst sem ríkisstjórnarinnar sem lækkaði skuldir almennings, heimilanna, og ríkissjóðs.