144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[11:27]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Eins og við vitum er þessi ríkisfjármálaáætlun stóri ramminn og stefnumörkun og tekjur og gjöld í stóra samhenginu. Hv. þingmaður velti því upp hvort menn geri sér grein fyrir því hvað sé í raun og veru verið að leggja þarna undir varðandi fjárlög ríkisins næstu fjögur árin, hvort það sé raunhæft eða hvort það sé bara til málamynda til að uppfylla það að leggja fram ríkisfjármálaáætlun. Mér finnst það vera mjög veigamikil spurning hvort forsendur fyrir áætluninni séu brostnar að einhverju leyti.

Hv. þingmaður kom inn á málefni Landspítalans. Mig langar aðeins að heyra betur frá hv. þingmanni varðandi hann. Landspítalinn er ekki þarna inni, ekki er gert ráð fyrir honum. Maður spyr sig: Á að fjármagna hann með öðrum hætti? Ég vil aðeins að heyra viðhorf þingmannsins gagnvart því. Eins varðandi með öldrunarmálin, mér skilst að halda eigi áfram með leiguleiðina, sem er ágætt, en þá þarf líka að fjármagna Framkvæmdasjóð aldraðra, er það ekki? Einnig var komið inn á 30% sölu á Landsbankanum. Stjórnarflokkarnir eru ekki sammála um það þannig að þar er líka óvissa. Á að selja Landsbankann eða eigum við að eiga hann þegar stjórnarflokkarnir eru ekki sammála um hvað gera eigi? Fram kom að Framsóknarflokkurinn samþykkti á flokksþingi sínu að við ættum að eiga Landsbankann og ég er sammála því. Og varðandi innborganir hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, er gert ráð fyrir því í þessari áætlun?