144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[11:44]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála því. Reyndar fannst mér fyrir gærdaginn meirihlutaálit fjárlaganefndar vera svolítið eins og að menn hefðu sagt: Já, við verðum að gera þetta samkvæmt þingsköpum þannig að við þurfum að afgreiða þetta. Svo er skrifaður einhver þægilegur texti og þar stendur ekkert sem er óþægilegt og þá er þetta frá, þá þurfum við ekki að hugsa meira um það.

Ég segi það alveg eins og er, þetta hræðir mig svolítið vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að þessi fjármálaáætlun til fjögurra ára sé og geti orðið í framtíðinni mjög veigamikið plagg. Þess vegna eigum við að koma fram af fyllstu virðingu við hana þegar hún er lögð fram í fyrsta sinn. Þess vegna hefði mér fundist af virðingu við plaggið og af virðingu við það markmið sem þessi vinna, fjármálaáætlun til fjögurra ára á að skila, að strax í gær þegar menn sáu að þessi mikla aðgerðaáætlun um losun fjármagnshaftanna væri að koma, og það hefur eitthvað í för með sér og bætist ofan á kjarasamningana, hefði fjárlaganefndin átt að koma og segja: Við ætlum að taka þetta hér inn. Og síðan hefðu þeir getað gert texta þar sem segir: Við ætlum ekki að taka upp alla áætlunina en við vekjum athygli á þessu og hinu og eitthvað þar fram eftir götunum. (Forseti hringir.) Það væri gert alls staðar nema hér í því andrúmslofti (Forseti hringir.) sem við lifum í kvölds og næstum því nætur núna, virðulegi forseti.