144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[11:47]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég segi enn og aftur: Þetta er eiginlega eins og mælt út úr mínum munni. Ég er sammála þessu. Ég hef sagt það áður, ég sagði það í störfum þingsins nokkrum sinnum í gær, ég er búin að segja það í þessari ræðu minni og sagði það í fyrri ræðu minni við fyrri umræðu að mér finnst þetta merkilegt skref sem verið er að taka hér. Mér finnst það geta boðað að ríkisfjármál hér á landi verði tekin fastari tökum en verið hefur hingað til. Ekki er vanþörf á. Þess vegna finnst mér skipta máli að í fyrsta skipti sem þessi áætlun er afgreidd úr þinginu sé það ekki gert eins og hún sé eitthvert plagg sem skipti engu máli og án þess að fjárlaganefndin líti yfir það og geri grein fyrir þeim miklu breytingum sem áttu sér stað meðan málið var til umfjöllunar í þingsal.