144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[11:49]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fara nokkrum orðum um ríkisfjármálaáætlunina. Fyrst af öllu er auðvitað óhjákvæmilegt að tala um það sem hér hefur verið nefnt, þá staðreynd að áætlunin skuli vera hér til afgreiðslu eiginlega án nokkurra efnislegra forsendna. Það hafa orðið tvær grundvallarbreytingar frá því að málið kom út úr nefnd. Önnur breytingin er sú stóra, í gær, um tilkynningu um haftaafnámsleið sem væntanlega gæti skilað, ef nauðasamningar ganga allir eftir, einum 500 milljörðum til lækkunar á skuldum ríkisins og þar með vaxtabyrði ríkisins. Hin breytingin er tillögur sem lagðar hafa verið fram um breytingar á sviði húsnæðismála í tengslum við gerð kjarasamninga. Hvorugan þessara þátta er að finna í forsendum ríkisfjármálaáætlunarinnar eins og hún stendur og þar af leiðandi nær hún ekki markmiði sínu.

Eins og ágætlega er rakið í meirihlutaálitinu er tilgangurinn með þessu ákvæði í þingskapalögum, með leyfi forseta, „að færa fjárlagaferlið framar á árið og gefa þar með rýmri tíma hjá Alþingi fyrir umfjöllun um stefnumörkun og meginþætti fjárlagagerðar. Þegar kemur að framlagningu fjárlagafrumvarps að hausti þá verði þegar búið að fjalla um þessar meginlínur ríkisfjármálanna.“

Nú eru meginlínur ríkisfjármálanna bara ekki skýrar samkvæmt þessari ríkisfjármálaáætlun og satt að segja minnir þetta mig svolítið á stöðuna sem við vorum í út úr brýnni neyð haustið 2008 þegar til umræðu var fjárlagafrumvarp þar sem gert var ráð fyrir forsendum sem allir vissu að væru horfnar. Það var lagt hér fram í byrjun október 2008 í samræmi við ákvæði þingskapa. Svo hrundu bankarnir. 1. umr. um fjárlög var þess vegna algerlega hlægileg vegna þess að menn voru að tala um frumvarp sem var alveg augljóst að var ekki hægt að efna. Þar var gert ráð fyrir tekjum sem allir vissu að mundu ekki koma og enginn var búinn að henda reiður á hver útgjöldin yrðu sem voru óhjákvæmileg. Svo var fjárlagafrumvarpinu gerbreytt milli umræðna.

Mér finnst eiginlega satt að segja þessi áætlun núna kalla á að málið fari aftur til nefndar og ég er kannski bara að biðja um nýtt nefndarálit þar sem menn taki tillit til þessara aðstæðna og hvaða sjónarmið þær veki upp. Að einu leyti er hægt að segja að í áliti meiri hlutans sem og í upphaflegri áætlun frá ráðherra sé gert ráð fyrir umtalsverðri eignasölu og hún rökstudd með því að hún sé nauðsynleg til að draga úr vaxtakostnaði ríkisins. Í nefndaráliti meiri hlutans segir, með leyfi forseta:

„Í áætluninni kemur fram að uppsöfnuð vaxtagjöld ríkissjóðs frá bankahruni á verðlagi ársins 2015 nemi um 580 milljörðum kr. Því sé brýnt að selja eignarhluti í fjármálafyrirtækjum og öðrum félögum auk þess að endurfjármagna ekki hluta af skuldsettum gjaldeyrisforða […] Þetta verði að gera annars vegar til að styrkja stöðu ríkissjóðs gegn hagsveiflum og hins vegar til að draga úr vaxtabyrðinni og auka þannig svigrúm m.a. til uppbyggingar og til að mæta vaxandi öldrunarkostnaði og lífeyrisskuldbindingum.“

Þessar forsendur hafa að sumu leyti breyst vegna þess að nú blasir við að miðað við kostnaðarmat fjármálaráðuneytisins á frumvarpi því sem við munum ræða á morgun, um stöðugleikaskatt, má gera ráð fyrir því að lækkun á árlegum vaxtakostnaði ríkisins gæti verið lauslega áætlað einhvers staðar á bilinu 35–45 milljarðar kr. Það er þá nýtt svigrúm sem kemur inn í ríkisfjármálin með þessum breytingum. Ég held að það sé almenn samstaða meðal allra flokka á þingi um að peningunum sem fást með samningum við kröfuhafana eða álagningu stöðugleikaskatts verði ekki varið til annars en að greiða niður skuldir ríkissjóðs, en þá samt mun sú skuldalækkun leiða til þess að vaxtareikningur ríkissjóðs lækkar. Það skapar svigrúm og ég minni á að í fyrri umr. um málið vakti ég athygli á þeim svakalegu tölum sem er að finna í ríkisfjármálaáætluninni um vaxtakostnað ríkisins og hversu gríðarlegur hann er í samanburði við vaxtakostnað evruríkjanna og hversu mikill herkostnaðurinn af krónunni er í samanburði við vaxtakostnað evruríkjanna. Í tölunum fyrir árið 2013 sem fylgdu upphaflegri ríkisfjármálaáætlun kom fram að vaxtakostnaður Íslands var nærri tvöfaldur sem hlutfall af vergri landsframleiðslu miðað við Grikkland þó að skuldir Grikklands væru tvöfalt hærri en Íslands. Það bendir til þess að við séum að borga fjórum sinnum meiri meðaltalsvaxtakostnað en Grikkir.

Þegar við erum með lítið ríki með sjálfstæðan gjaldmiðil með þetta háa vaxtastig kallar það á að við höldum skuldsetningu ríkissjóðs í algeru lágmarki. Það er forgangsverkefni að lækka skuldir ríkissjóðs. Og það voru vissulega ákveðin efnisrök fyrir því að beita eignasölu til að draga úr vaxtakostnaði eins og fjármálaráðherra lagði fram í hinu upphaflega máli, en þau rök eiga kannski ekki alveg eins vel við nú eftir nýjustu fréttir. Ég hefði viljað fá að sjá frá stjórnarmeirihlutanum einhverja stefnumörkun í þessu efni. Þetta er sérstaklega brýnt vegna þess að það er ágreiningur í stjórnarmeirihlutanum um hversu langt eigi að ganga í sölu eignarhluta í fjármálafyrirtækjum sérstaklega, þá sérstaklega því sem líklega mun gefa mestar tekjur sem er sala Landsbankans. Þar hefur flokksþing Framsóknarflokksins markað stefnu um langvarandi eignarhald ríkisins á Landsbankanum. Það er á hinn bóginn stefna fjármálaráðherrans samkvæmt ríkisfjármálaáætluninni að selja 30% og hann er með önnur frumvörp í gangi í þinginu sem eiga að auðvelda honum þann leik. Það er mjög athyglisvert að sjá meirihlutaálitið að þessu leyti því að meiri hluti nefndarinnar gætir þess að skauta mjög vandlega fram hjá þessu álitamáli og segja ekkert skýrt um það. Það þýðir þá jafnframt að samkvæmt álitinu eins og það stendur núna og samkvæmt ríkisfjármálaáætluninni eins og hún stendur núna eru þingmenn Framsóknarflokksins að skrifa upp á sölu Landsbankans þvert á samþykkt nýafstaðins flokksþings. Stór spurning sem mér finnst að þingmenn Framsóknarflokksins þurfi að svara er: Eru menn búnir að leggja af þær hugmyndir sem voru forsenda samþykktar flokksþingsins? Telja menn þær ekki eiga lengur við eða líta þingmenn Framsóknarflokksins svo á að ríkisfjármálaáætlunin sé bara eitthvert almennt blaður þar sem hægt sé að tala sér þvert um hug og segjast þar ætla að selja banka sem menn ætla ekkert að selja í reynd? Mér þætti eðlilegt að við fengjum í þinginu skýrari sýn á þetta og skýrari línur hvað þetta varðar.

Það er líka umhugsunarefni að horfa á launaforsendurnar og bótaforsendurnar. Í upphaflegri áætlun er gert ráð fyrir að kaupmáttaraukning opinberra starfsmanna verði 2% umfram verðbólgu. Verði hún meiri verði gripið til niðurskurðar í opinberri þjónustu, og í ríkisfjármálaáætluninni segir, með leyfi forseta, „með viðeigandi gagnráðstöfunum til lækkunar á launakostnaði svo sem með samdrætti í starfsmannafjölda eða vinnumagni o.þ.h.“

Þá er sem sagt boðað að ef kaupmáttaraukningin verði yfir 2% hjá opinberum starfsmönnum verði skorið niður í heilbrigðisþjónustu og menntakerfi.

Nú er ríkið nýbúið að gera samning við lækna um tugi prósenta launahækkanir. Hann fylgdi í kjölfar samnings við sérgreinalækna um 27% hækkun. Kjarasamningar eru nú lausir og hjúkrunarfræðingar búnir að vera tvær vikur í verkfalli, geislafræðingar búnir að vera átta vikur í verkfalli og rökin sem ríkið beitti til að réttlæta samninga við lækna umfram það sem aðrir fengu á markaði voru fyrst og fremst þau að það þyrfti að færa þeim sérstakar bætur vegna þess að læknar væru á samkeppnishæfum vinnumarkaði og gætu fengið sér störf annars staðar. Það horfði til auðnar hjá stéttinni hér á landi ef ekki tækist að hækka launin. Allt voru þetta sannfærandi rök en eins og ég margbenti á á þeim tíma eiga þau að sínu leyti alveg nákvæmlega eins við um hjúkrunarfræðinga og geislafræðinga svo dæmi sé tekið. Eini munurinn er að það eru fjölmennar kvennastéttir, öfugt við lækna. Fólk í þessum stéttum býr við nákvæmlega jafn opinn vinnumarkað og gagnkvæma viðurkenningu réttinda milli landa og það ber nú þegar mjög mikið á því að hjúkrunarfræðingar leiti í störf til annarra landa. Bara núna á síðustu vikum hafa nærri 20% af ljósmæðrum á Landspítalanum náð í vottorð um menntun og hæfni til að geta sótt um vinnu í útlöndum. Við erum með mjög alvarlega stöðu uppi á launamarkaði hjá þessum mikilvægu og fjölmennu stéttum og ég held að engum detti í hug að samið verði við þær á endanum um 2% ofan á lágmarkskjarasamninga í ljósi þeirra samninga sem þegar hafa verið gerðir við lækna. Það þýðir væntanlega að stjórnarflokkarnir eru með samþykkt ríkisfjármálaáætlunarinnar að skuldbinda sig til niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu til að mæta þessari kaupmáttaraukningu. Maður spyr líka: Er hér verið að boða niðurskurð í menntakerfinu til að mæta hækkunum framhaldsskólakennara umfram 2% yfir verðbólgu sem þegar er búið að semja við þá um af hálfu sömu ríkisstjórnar? Mér finnst þessi launaforsendutala út af fyrir sig vekja alveg gríðarlega margar spurningar.

Þá er ég ekki kominn að hinni afleiddu stærðinni sem er að gert er ráð fyrir að það verði 2% hækkun kaupmáttar launa umfram verðbólgu en 1% aukning kaupmáttar lífeyrisþega umfram verðbólgu. Mér finnst það líka vera þáttur sem stjórnarmeirihlutinn og sérstaklega þingmenn Framsóknarflokksins þurfi að svara í ljósi yfirlýsinga hæstv. félagsmálaráðherra í vikunni um aðgerðir varðandi kjör eldri borgara og lífeyrisþega almennt í kjölfar nýgerðra kjarasamninga. Mér finnst þurfa skýr svör frá ríkisstjórnarþingmönnunum um það hvort menn séu þá tilbúnir að segja bara fullt og fast með þessari ríkisfjármálaáætlun að menn stefni ekki að því að tryggja öldruðum og örorkulífeyrisþegum 300 þús. kr. í lok samningstímans 2018. Ætla menn í alvöru sem sagt að halda áfram að láta kjör aldraðra og öryrkja hækka í samræmi við almenna verðlagsþróun þar sem hækkanir verða minni en launahækkanir lægstu launa á þessum samningstíma? Þar af leiðandi mun bil lægstu launa og bóta almannatrygginga fara vaxandi. Það er mjög skaðlegt. Réttlætissjónarmiðið að baki því að reyna að ná 300 þús. kr. í lok samningstímans er að í þeirri fjárhæð felist einhvers konar lágmarksframfærsluþörf. Það sama hlýtur að eiga við um aldraða og öryrkja. Öryrkjar geta ekki bætt sér bág kjör með aukavinnu því að þeir hafa ekki starfsgetu til að afla sér frekari tekna. Það eru vissulega dæmi um aldraða sem eru með háar bætur úr lífeyrissjóðum og búa vel að því leyti en dæmin eru líka fjölmörg og fara vaxandi um ellilífeyrisþega sem eru mjög illa settir með mjög litlar tekjur úr lífeyrissjóðum, njóta þeirra í litlu vegna margháttaðra og gagnkvæmra skerðinga. Ég vildi gjarnan fá að sjá samantekt á fjölda þeirra ellilífeyrisþega sem eru með tekjur fyrir skatt undir 300 þús. kr. Mig grunar að það sé meira en helmingur ellilífeyrisþega. Það kæmi mér mjög á óvart ef það væri minna. Sá hópur hlýtur að horfa til þess að njóta jafnrar stöðu og almennt launafólk á vinnumarkaði um lágmarksframfærslu.

Virðulegi forseti. Ég hef ekkert náð að fjalla um síðasta þáttinn í þessu máli sem er hlutur nýju húsnæðistillagnanna. Þar eru boðuð umtalsverð ríkisútgjöld en eftir er að útfæra það nánar. Ég hefði viljað sjá framhaldsnefndarálit frá meiri hlutanum þar sem menn freista þess aðeins að slá einhverri mælistiku á það hvað það muni þýða á næstu þremur árum. Mér hefði þótt það eðlilegra. Áhyggjuefni mitt er þess vegna að öllu þessu samandregnu að ég verð að segja að þetta boðar ekki gott fyrir framhaldið í vinnunni í þinginu um aukinn aga í ríkisfjármálum.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur stundum sagt að frumvarpið sem liggur hér inni um opinber fjármál dugi svo vel til að marka heildarstefnu í íslensku efnahagslífi að það þurfi ekki einu sinni peningastefnu í landinu. Það dugi bara að hafa stefnu um aga í ríkisfjármálum og hún verði til með lögum um opinber fjármál. Lög um opinber fjármál eru endalausar formreglur, rétt eins og þessi áætlun er áætlun sem byggir á formi. Og ef stjórnarmeirihlutinn er staðráðinn í að virða efnisinnihald þeirra reglna að vettugi alveg eins og hann gerir hér með því að ætla okkur að samþykkja og ræða áætlun sem stenst ekki boðar það ekki gott um framhaldið og gefur þann tón að það sé bara eðlilegt og rökrétt að umgangast þessar formreglur að vild, það þurfi ekkert endilega að virða efnislegt inntak þeirra. Það teldi ég mikið tjón og mjög til vansa. Ég held að það sé lykilatriði fyrir okkur og ég hef bara áhyggjur af því varðandi samþykkt frumvarpsins um opinber fjármál ef afstaða stjórnarmeirihlutans til bindandi formkrafna er jafn léttúðug og hún virðist vera hér í afgreiðslu þessa máls. Það finnst mér áhyggjuefni sem við þurfum að taka á og ég ítreka þar af leiðandi óskir til stjórnarþingmanna, það eru tveir þingmenn Framsóknarflokksins í salnum nú, að þeir gangist fyrir því að málið verði kallað inn til nefndar. Þótt það yrði ekki nema tveggja síðna framhaldsnefndarálit sem tæki tillit til þessara helstu breytinga í lykilhagstæð væri þó aðeins betri bragur á því, þetta væri þá ekki alveg eins og við værum í fáránleikaleikhúsi að samþykkja eitthvað sem allir vita að er ekki neitt. Þetta er svolítið eins og að kaupa sér jakkaföt þegar maður ætlar að kaupa sér kjól. Hér er bara um allt annan hlut að ræða en við vitum að er raunsönn lýsing á hinni efnislegu umgjörð sem við búum við. Við vitum að veruleikinn er allt annar en verið er að lýsa í þessari áætlun.