144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[12:10]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það er rétt hjá hv. þingmanni. Eins og ég lýsti áðan tók fjárlagafrumvarpið eiginlega gerbreytingum frá 1. til 2. umr. fjárlaga haustið 2008. Mig minnir að það hafi aftur tekið breytingum yfir í 3. umr. fjárlaga en það dróst líka fyrir vikið að koma með frumvarpið til 2. umr. vegna þess að menn voru stöðugt að reyna að átta sig á staðreyndum og moka inn útgjaldaþörfinni annars vegar og niðurskurðarþörfinni hins vegar og svo skuldsetningarþörfinni.

Ég skil satt að segja ekki tilganginn í að afgreiða ríkisfjármálaáætlun sem allir vita að er ekki raunsönn lýsing á fyrirætlan stjórnarmeirihlutans. Hugmyndin er sú að þessi áætlun sé einhvers konar yfirlýsing um það hvert menn stefni. Hún eigi til dæmis að geta hjálpað fjárfestum, innlendum sem erlendum, til að gera áætlanir til næstu ára, hún eigi að geta hjálpað verkalýðsfélögum að gera kröfugerð o.s.frv.

Það sér hver maður að það er ekkert hægt að byggja á þessu, þetta er bara tóm tjara. Það er engin innstæða fyrir þessu. Mér finnst þess vegna kjánalegt að afgreiða þetta og held að þá væri bara betra að láta málið liggja og láta það daga uppi. Það er engum greiði gerður með að samþykkja eitthvað svona.

Það er líka annað sem er gert ráð fyrir í ríkisfjármálaáætlun. Hún á að skuldbinda stjórnarmeirihlutann. En hér leggja framsóknarmennirnir til dæmis til að Landsbankinn verði seldur þegar þeir eru nýbúnir að samþykkja á flokksþingi að það eigi ekki að selja hann. Hvort er að marka? Hvort eru þeir að segja satt þegar þeir skrifa undir nefndarálit um ríkisfjármálaáætlun eða þegar þeir greiða atkvæði á flokksþinginu sínu? Ég veit það ekki. Það er algerlega fáránlegt að vera að afgreiða eitthvað svona sem enginn veit hvort eitthvað er á bak við.