144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[12:19]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið og get verið honum nokkuð sammála í því.

Mig langar að snúa að öðru sem mér finnst vera frekar stórt mál í þessu plaggi, í innviðunum, þ.e. fjárfestingunni. Hér er talað um að það eigi að haldast sem óbreytt hlutfall af landsframleiðslunni um 1,2% sem er í fjárlögunum fyrir þetta ár og ég hef aðeins velt fyrir mér hvað það þurfi að vera hátt til að innviðirnir rýrni ekki hraðar en fjárfestingin. Ég spyr þingmanninn hvað hann telji í því samhengi. Við vitum auðvitað af öldrunarstofnunum, við vitum af heilsugæslunni og vegakerfinu. Það er svo margt undir sem þarf að fara í. Ég held að þetta hlutfall hafi verið 4–5% 2005–2007 og það má eiginlega álíta að það sé kannski skuldasöfnun í rauninni sem ríkið er að gera með því að fresta framkvæmdunum svona langt inn í framtíðina. Er þingmaðurinn ekki sammála mér í því (Forseti hringir.) að þetta er verulegt áhyggjuefni. Hvað þyrfti hlutfallið að vera?