144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[12:22]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Grundvöllur þessarar áætlunar er að veikjast eins og komið hefur fram í ræðum margra hérna og alveg ástæða til að hafa áhyggjur af því. Það hefur líka komið fram að tekjuhliðin í þessari áætlun er veikari en gert var ráð fyrir og núverandi ríkisstjórn er búin að afsala sér tekjum upp á allt að 30 milljarða. Mig langar að heyra hvað hv. þingmaður sér fyrir sér varðandi þau mál. Afkoma ríkissjóðs virðist standa bara á núlli næstu fjögur árin. Þá er afkomubati ríkissjóðs í raun og veru að stöðvast. Það hefur komið fram að hagkerfið tók að vaxa um 2010 og svokallaður frumjöfnuður náðist 2013, eða jákvæður heildarjöfnuður, og síðan þá hefur landsframleiðslan aukist sem er auðvitað jákvætt, hefur aukist um hátt í 10%. Núna virðist þetta vera orðinn mjög hægfara bati. Ríkisvaldið afsalar sér miklum tekjum og frumgjöldin fara lækkandi miðað við verga landsframleiðslu sem þýðir að við erum síður í stakk búin til að byggja upp innviðina. Mig langar aðeins að heyra viðhorf þingmannsins gagnvart þessum hlutum, hvort þetta stefni ekki (Forseti hringir.) í áhyggjur af afkomu ríkissjóðs í framtíðinni og getu hans.