144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[12:44]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er spurning í hvaða ástandi framsóknarmenn voru þegar þeir samþykktu allar þessar ályktanir ef þeir ætla síðan að standa að baki þeim stjórnarfrumvörpum sem liggja fyrir í þinginu. Í sálfræðinni er stundum talað um veruleikarof þar sem sýn manna á það sem er raunverulega að gerast slitnar og þeir sannfæra sjálfa sig um að heimurinn sé allt öðruvísi en hann raunverulega er. Kannski er það einhver slík kennd sem hefur komið yfir framsóknarmenn á flokksþinginu þegar þeir samþykktu allar þessar ályktanir um allt sem þeir ætluðu ekki að gera þó að hér liggi fyrir hvert þingmálið á fætur öðru sem skuldbindi þá til að gera það. Þeir hreyfa hvorki legg né lið gegn þeim málum öllum saman, hvorki ríkisfjármálaáætluninni hér með fyrirætlanir um að selja Landsbankann né heldur þeim málum sem hv. þingmaður rakti um bæði bónusa og niðurlagningu Bankasýslu ríkisins sem eru allt mál sem þeir samþykktu flokksþingsályktanir gegn en reka hér af miklum dugnaði áfram í gegnum þingið.

Ég vildi spyrja hv. þingmann í ljósi þess að um er að ræða í reynd algerlega formlega afgreiðslu án nokkurs efnislegs innihalds: Hvaða fordæmi telur hann að hér sé skapað? Í ljósi frumvarpsins til laga um opinber fjármál sem við höfum báðir komið að í ráðherratíð okkar að var unnið að og samið hef ég af því nokkrar áhyggjur ef stjórnarmeirihlutinn ætlar að skapa það fordæmi að umgangast af þetta mikilli léttúð formkröfur um aga í ríkisfjármálum. Ég minni á að hæstv. fjármálaráðherra hefur talið frumvarp um opinber fjármál svo mikla guðsgjöf að hann telji að það geti komið í staðinn fyrir peningamálastefnu í landinu og alla aðra stefnumörkun af hálfu stjórnvalda. Það boðar þá ekki gott ef stjórnarmeirihlutinn telur sér fært að virða (Forseti hringir.) efnisinntak þeirra krafna sem þar er að finna að vettugi í framhaldinu.