144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[12:46]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins meira um flokksþing Framsóknar af því að nú heiðrar hv. þm. Karl Garðarsson okkur með nærveru sinni meðal annarra, og svo forseti, skal það vissulega viðurkennt — náttúrlega færi ekki vel á því að sá sem hér stendur gerði það ekki sem flokksformaður í 15 ár — að ýmislegt getur gerst í hópstemningu á flokksfundum. Það þekkjum við mörg. Ég verð þó að segja alveg eins og er, og það er bara í einlægni sagt, að ég man engin dæmi þess að menn hafi verið svona duglegir á flokksþingi að samþykkja í gríð og erg ályktanir gegn sjálfum sér. Það er það sem Framsókn gerði þarna. Landsþing framsóknarmanna samþykkti ályktanir gegn Framsóknarflokknum, þ.e. forustuflokknum sem leiðir þessa ríkisstjórn — eða er það ekki? — og er búinn að standa hér að mörgum stjórnarfrumvörpum sem flokkurinn ályktar svo gegn. Það heitir að álykta gegn sjálfum sér og ég held að framsóknarmenn (Gripið fram í.) hafi slegið met í þessu. Þeir hafa kannski bara gleymt því að þeir væru í ríkisstjórn og þeir gera það iðulega vegna þess að þeir eru í reynd andlega enn þá í stjórnarandstöðu frá síðasta kjörtímabili.

Það er nefnilega svo furðulegt með það að Framsókn hefur ekki fundið leiðina út úr stjórnarandstöðunni á síðasta kjörtímabili. (Gripið fram í.) Ég gæti alveg boðið þeim aðstoð í þeim efnum því að ég hef oft skipt um þessi hlutverk. Ég hef nokkrum sinnum verið sitt á hvað í stjórn eða stjórnarandstöðu eins og kunnugt er.

Varðandi fordæmið um afgreiðslu þessarar ályktunar sem hv. þm. Árni Páll Árnason spyr um: Já, auðvitað er þetta í þeim skilningi alvarlegt að þetta er þingsályktunartillaga um ríkisfjármálaáætlun á grundvelli ákvæða þingskapa. Sem betur fer má segja á móti að hún uppfyllir ekki skilyrðin sem henni er í raun og veru ætlað að uppfylla með því að greina þetta niður á málasvið og setja niður ramma. Þetta er í reynd einhvers konar prufa, þetta er ekki í alvöru, þannig að ég tel að við gerum bara best í því að sauma rækilega saman alla þá fyrirvara (Forseti hringir.) sem óhjákvæmilegir eru og í raun og veru þarf að lýsa því yfir við afgreiðslu þessarar tillögu að þetta hafi bara verið æfing.