144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[12:51]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi vöruskiptajöfnuðinn er hann ein af þessum breytum sem á alltaf að horfa á vegna þess að jafnvel þó að það gangi í heildina ágætlega og við séum með góðan afgang á þjónustujöfnuði — sem við erum, þökk sé enn og aftur hinum ævintýralegi vexti í flugsamgöngum og ferðaþjónustu — og jafnvel þótt fjármagnsjöfnuðurinn sé þá í lagi, en ef vöruskipajöfnuðurinn er orðinn neikvæður er það alltaf áhyggjuefni. Þar er á ferðinni hin stabíla framleiðsla, hin stöðuga verðmætasköpun bundin í framleiðslustarfsemi og útflutningi. Ef hún dugar ekki til að mæta innflutningi varnings þarf að hyggja að því hvað er á ferðinni. Tímabundið getur það skýrst af því að innflutningur aukist vegna aukins innflutnings á fjárfestingarvörum, hráefni, framleiðslutækjum og tólum og það getur verið í sjálfu sér ávísun á ágæta tíma fram undan.

Ég man þegar ég lá yfir þessum tölum á til dæmis árinu 2010 og sannfærðist um að batinn væri að ganga í garð, það var þegar ég sá á fyrri hluta þess árs og miðju ári í innflutningsskýrslunum að innflutningur á rekstrarvörum væri að aukast, hráefni, framleiðslutækjum og rekstrarvörum. Þá hugsaði ég: Já, nú er þetta að koma og innan þriggja til sex mánaða munum við sjá hagvöxt. Það var nákvæmlega það sem gerðist. Þá var hagkerfið að byrja að snúa við og það lagði grunninn að aukinni verðmætasköpun.

Það þarf auðvitað að átta sig á hvað þar er á ferðinni. En það er alltaf þannig að viðvörunarbjöllur eiga að hringja þegar vöruskiptajöfnuðurinn er að snúast yfir í neikvæðar tölur.

Brýnustu verkefnin í hagstjórn? Tímans vegna læt ég duga að nefna tvennt. Ég held að það sé augljóst, það er væntingastjórnun, mikið notað nýyrði, það er að reyna að hafa hemil á því að menn einhvern veginn missi fram af sér beislið. Það hefur alltaf verið okkur Íslendingum mjög hættulegt. Það er eiginlega hjarðhegðunin í því (Forseti hringir.) þegar einhver rekur upp puttann og segir: Það er komið góðæri. Þá fer allt á fulla ferð.

Hitt stóra verkefnið er agaður ríkisbúskapur sem styður við það verkefni Seðlabankans að halda aftur af verðbólgu og þenslu og styður við peningastefnuna.