144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[13:42]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég sem jafnaðarmaður er náttúrlega ekki í nokkrum vafa. Ég get aldrei stutt það að dregið sé úr umfangi samneyslunnar með þessum hætti. Hér er verið að tala um samfélagið sem við eigum saman, heilbrigðiskerfið sem á að tryggja okkur öllum jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og menntakerfi sem á að standa okkur öllum opið óháð efnahag. Við vitum að þessum markmiðum er nú þegar ógnað. Heimilin leggja á fimmta tug milljarða yfir borðið vegna heilbrigðisþjónustu, lyfja og menntunar. Þetta er þróun sem má ekki halda áfram. Við verðum að vinda ofan af þessu. Við eigum að koma okkur saman um hvað sé talin eðlileg hlutdeild heimilanna í þessum kostnaði. Þangað eigum við að stefna. Það verður að bæta í kerfin, bæði er of lítið fé inni í þeim og eins er kostnaðarhlutdeild heimilanna of há. Við jafnaðarmenn erum algjörlega mótfallin því að ganga enn lengra í því að fjársvelta þessi kerfi og velta meiri og meiri kostnaði yfir á heimilin. Það eru tekjulægri heimilin sem oft og tíðum reiða sig meira á heilbrigðisþjónustu, þau tekjulægri af því að þar er eldra fólk og veikara fólk. Það er þangað sem við erum að velta byrðunum. Í menntamálum eigum við að hafa metnaðarfyllri framtíðarsýn en svo að við viljum útiloka fólk frá menntun af því að það hafi ekki ráð á henni.