144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[13:44]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Ég verð jafnframt að segja að ég hef mjög miklar áhyggjur af því hvert þessi stefna muni leiða velferðarkerfið okkar. Í nefndaráliti minni hluta hv. fjárlaganefndar segir að vöxtur útgjalda sé hreinlega vanáætlaður. Þar er meðal annars bent á hliðsjón af lýðfræðilegri þróun og innbyggðum kerfisvexti, þ.e. kostnað okkar vegna fjölgunar lífeyrisþega í fyrirsjáanlegri framtíð sem og að gera má ráð fyrir því að kostnaður vegna S-merkra lyfja muni vaxa enn frekar. Má ekki segja sem svo að annars vegar sé gert ráð fyrir samdrætti í þeim hluta sem ríkið ætlar að verja í samneysluna en á sama tíma, þá vegna lýðfræðilegra breytinga á samsetningu þjóðarinnar, megum við einmitt gera ráð fyrir auknum útgjöldum inn í þennan flokk?

Ég spyr hv. þingmann hvort hún sé sammála mér í því að þegar þetta tvennt er lesið saman og skoðað saman geti það ekki boðað annað en alveg gríðarlega veikingu á því velferðarsamfélagi sem við teljum mörg vera veikt nú þegar, (Forseti hringir.) að það verði enn veikara ef þessi leið er farin.