144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[13:47]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Jú, þetta fer náttúrlega engan veginn saman. Hérna eru nú þrír hv. þingmenn úr minni hlutanum sem hafa heldur betur legið yfir ríkisfjármálunum, hafa langtímahugsun að leiðarljósi og sjá auðvitað það sem öllum er ljóst sem þessa áætlun skoða að hér á að fara að minnka velferðarkerfið. Það á að fara að minnka samfélagið sem við eigum öll saman. Það er svo merkilegt að ríkisstjórnin skuli ekki sjá þetta og óttast þessa þróun. Hún leggur frekar áherslu á að grafa undan heilbrigðis- og menntakerfinu en að tryggja að við fáum meiri tekjur í formi arðsins af auðlindunum og að við blásum til sóknar í vaxandi og verðmætaskapandi greinum í tækni- og hugverkaiðnaðinum.

Það þarf gott og stöndugt velferðar- og menntakerfi og heilbrigðiskerfi til að atvinnulíf fái dafnað. Við þurfum blómlegt atvinnulíf til að fjármagna til baka heilbrigðis- og menntakerfið. Það er gamaldags sýn á verðmætasköpun, á atvinnulíf og ofnýtingu, og gamaldags kredda um það að skattalækkanir séu alltaf betri en það að hlúa að því samfélagi sem við eigum saman og býr til gott samfélag.