144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[13:51]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka ákaflega skemmtilega spurningu. Skattheimta er ekki markmið í sjálfri sér. Skattar eiga að vera sanngjarnir, það á að gæta meðalhófs, en þeir eru nýttir til að afla nauðsynlegra tekna og til tekjujöfnunar. Það þurfti í kjölfar hrunsins að finna nýja skattstofna og við hækkuðum veiðigjöldin og komum á auðlegðarskatti frá allra ríkustu einstaklingunum. Síðan hefði ég viljað sjá í framhaldinu þróun þar sem við hefðum getað farið að stilla af og jafnvel lækka skatta á þá allra tekjulægstu og fundið leiðir til að gera ýmsar lagfæringar sem hefði mátt gera í skattkerfinu. Við hefðum líka viljað lækka tryggingagjaldið á fyrirtæki sem hefur mjög mikil áhrif á rekstur þeirra og getu til þess að ráða fólk og slíkt. Við vorum byrjuð að auka í á útgjaldahlið til að bæta inn í kerfin aftur. Það sést ekki á þessu grafi, en það sést hvernig hægir á útgjaldavextinum. Útgjöldin urðu náttúrlega mikil vegna atvinnuleysistrygginga og ýmissa skulda sem við sátum uppi með en vorum komin með á ágætan stað. Þó var augljóst að það þurfti að bæta í kerfin. Við jafnaðarmenn hefðum eflaust gert einhverjar skattkerfisbreytingar en ekki farið í að auka skatttekjurnar heldur jafnvel lækkað þær á einhverjum sviðum og ekki dregið svona úr útgjöldunum heldur þvert á móti aukið útgjöldin en auðvitað tryggt að tekjurnar væru áfram meiri en útgjöldin eins og við vorum að (Forseti hringir.) komast í 2013 til að geta greitt hraðar niður skuldir.