144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[13:56]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég er alveg sammála hv. þingmanni þegar hann talar um mikilvægi þess að við skuldum ekki of mikið. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fékk heldur betur það verkefni að ná okkur niður úr 200 milljarða halla með umtalsverðum og erfiðum niðurskurði þar sem við sögðum einmitt: Við verðum að gera þetta því að við verðum að breyta vöxtum í velferð. Við getum ekki haldið svona áfram því að þá verða vaxtagjöldin svo yfirgnæfandi í útgjöldum ríkissjóðs og tekjurnar fara í það.

Ég ætla líka að minna á að þingflokkur hv. þingmanns, þingflokkur Pírata, lét gera könnun þar sem var einróma samhljómur með þjóðinni, eiginlega sama hvaða breytur maður skoðaði, um að það ætti að forgangsraða skattfé í heilbrigðismálin. Kannanir hafa líka sýnt að fólk almennt, meiri hluti fólks, síst ríkir kallar, og þetta er satt, vill jöfnuð. Af hverju vill fólk jöfnuð? Hvað er einmitt eftirsóknarvert fyrir samfélag að hafa? Af hverju er jöfnuður góður? Það er auðvitað gott fyrir einstaklingana sem í hlut eiga, sérstaklega þá sem eru í lægri tekjuskalanum, en það leiðir af sér meira heilbrigði, fleiri fá tækifæri og geta þá kannski skilað meira til samfélagsins. Það leiðir til öruggara samfélags og það leiðir til þess að ýmsir útgjaldaliðir lækka, útgjaldaliðir sem til dæmis Bandaríkjamenn eru að fást við í fangelsismálum eða aðrar þjóðir þegar kemur að löggæslu og hernaði. Jöfnuður er ákjósanlegur og eftirsóknarverður og hann borgar sig líka í efnahagslegu tilliti. Það er bónusinn.