144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[13:58]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Í athugasemdum við þingsályktunartillögu þessa um ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016–2019 kemur fram að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi á undanförnum missirum stutt mjög við kaupmáttaraukningu almennings. Fyrst má nefna aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna sem hafa lækkað húsnæðisskuldir verulega og létt greiðslubyrði. Ýmsir skattar og gjöld hafa einnig lækkað og bætur almannatrygginga hafa hækkað. Svigrúm hefur á sama tíma skapast til að auka framlög til mikilvægra málaflokka eins og mennta- og heilbrigðismála. Unnið er að breytingum á húsnæðisstefnu stjórnvalda með það að markmiði að styðja betur við tekjulágar fjölskyldur og styrkja stöðu fyrstu íbúðarkaupenda. Markmiðið með bættri afkomu ríkissjóðs á næstu árum er að bæta enn frekar lífskjör fólks í landinu til skemmri og lengri tíma. Það verður best gert með því að byggja áfram upp innviði samfélagsins, styrkja heilbrigðis- og velferðarkerfið og draga samhliða úr álögum á einstaklinga og fyrirtæki. Til þess þarf að vinda ofan af miklum skuldum ríkissjóðs og draga úr vaxtabyrðinni eins og frekast er kostur. Það verður meðal annars gert með eftirminnilegum hætti, með haftafrumvörpunum sem verða væntanlega hér til umræðu á morgun.

Vaxtakostnaður mun minnka og afkoman batna þannig að meira svigrúm myndast til uppbyggingar, skattalækkana og varúðarráðstafana í ríkisfjármálum sem nýtast munu til sveiflujöfnunar í hagkerfinu þegar á þarf að halda. Það er hins vegar áfram mikilvægt að sýna aðhald í útgjöldum ríkisins og greiða skuldir upp smám saman með afgangi á ríkisrekstrinum á sama hátt og stofnað var til þeirra með hallarekstri. Í þessari ríkisfjármálaáætlun eru því sett stefnumið um hægfara en stöðugan bata í afkomu ríkissjóðs þannig að rekstrarafgangur verði orðinn að minnsta kosti 1% af vergri landsframleiðslu árið 2018 og haldi áfram að vaxa í áþekkum mæli á lokaári áætlunarinnar.

Í þessari ríkisfjármálaáætlun er við það miðað að fjárfestingar ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu haldist óbreyttar en það eru 1,2% í fjárlögum fyrir árið 2015. Það þýðir að nokkurt svigrúm verður til að ráðast í brýn og arðbær framkvæmda- og fjárfestingarverkefni, bæði vegna þess að ný verkefni koma í stað tiltekinna framkvæmda sem lokið verður við á tímabilinu og vegna þess að framlög til fjárfestinga verða hækkuð til að halda í við vöxt landsframleiðslunnar. Í þessu felst meðal annars að stefnt verður að því að ljúka byggingu á nýju sjúkrahóteli og hönnun á meðferðarkjarna nýs Landspítala en bygging hans verður væntanlega boðin út í framhaldinu. Framlög til fjárfestinga í samgöngumálum og vísinda-, rannsókna- og tækniþróunarmálum fara vaxandi.

Þá er unnið eftir þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálaáætluninni að draga áfram úr flækjustigi skattkerfisins samhliða því að skattar lækki á heimili og atvinnulíf. Stefnt er að enn frekari lækkun á tryggingagjaldi og tollar verða endurskoðaðir. Auk jákvæðra áhrifa á verðlag má til lengri tíma vænta framleiðniaukningar af niðurfellingu tolla. Áfram verður unnið að áformum um lækkun og breytingar á tekjuskattsþrepum og tekjuskatti einstaklinga.

Þá má ekki gleyma því að núverandi ríkisstjórn hefur unnið að því að einfalda skattkerfið, gera það skilvirkara og lækka skatthlutföll. Þá má nefna að helstu breytingar í þessa veru í tíð þessarar ríkisstjórnar eru þessar:

Almenn vörugjöld hafa verið afnumin og þar með hefur neyslustýringu á um 800 vöruflokkum verið hætt. Tekjuskattur einstaklinga hefur verið lækkaður, miðþrep lækkað úr 25,8% í 25,3%, og neðri viðmiðunarmörk hækkuð. Tryggingagjald mun lækka úr 7,59% í 7,35% fram til 2016. Breytingar hafa verið gerðar á virðisaukaskattskerfinu þannig að efra þrep er orðið 24% og neðra þrep 11%. Fjársýsluskattur var lækkaður úr 6,75% í 5,5%, útvarpsgjald hefur verið lækkað og frítekjumark fjármagnstekna hækkað úr 100 þús. kr. í 125 þús. kr. Þá má ekki gleyma því að séreignarsparnað má nota til lækkunar húsnæðislána svo fátt eitt sé nefnt.

Ríkisfjármálaáætlunin fyrir árin 2016–2019 byggist á vinnuspá Hagstofu Íslands um efnahagshorfur sem unnin var í byrjun mars 2015. Gangi hagspár eftir um samfelldan hagvöxt út spátímabilið, sem fari þó lækkandi úr um 4% á þessu ári niður í um 2,5% árið 2019, verður yfirstandandi áratugur eitt lengsta hagvaxtartímabil í nútímahagsögu landsins. Þessar hagstæðu forsendur setja mark sitt á þessa áætlun, sérstaklega tekjuhliðina, og verður því að hafa fyrirvara um óvissu um framganginn við mat á markmiðum ríkisfjármálaáætlunarinnar, einkum þegar komið verður fram á síðustu árin. Verði vöxtur þjóðarútgjalda minni en spáin segir til um er hætt við að raunvöxtur tekna verði einnig minni en ella og að erfiðara verði að fylgja eftir áformum um batnandi afkomu ríkissjóðs. Gangi þjóðhagsspáin hins vegar eftir skapast kjöraðstæður til að grynnka á skuldum og lækka vaxtakostnað sem er eitt helsta viðfangsefnið í rekstri ríkisins. Með lækkun skulda og vaxtagjalda sem nú er að verða að veruleika með nýju frumvörpunum sem við munum ræða hér á morgun myndast meira svigrúm fyrir ríkissjóð þegar kemur að næstu efnahagslægð eða niðursveiflu.

Við þessar hagfelldu aðstæður í hagkerfinu er sem sagt unnið að losun fjármagnshafta og voru fyrstu skrefin tekin með kynningunni á frumvörpunum í gær. Öllu skiptir að vel takist til og að sú leið sem farin verður viðhaldi efnahagslegum stöðugleika og uppfylli sanngjarnar samfélagslegar væntingar. Eftir því sem afnámsferlinu vindur fram verður þörf á því að uppfæra langtímaáætlun ríkisfjármála til samræmis við þau áhrif sem afnám hafta mun hafa á afkomu ríkissjóðs, svo sem vegna breyttra vaxtakjara og skuldastöðu.

Framgangur kjarasamninga er einn helsti óvissu- og áhættuþátturinn í íslensku efnahagslífi eins og sakir standa og því skiptir miklu máli að úr því verði leyst þannig að verðstöðugleikanum verði ekki raskað. Að öðrum kosti verður þörf á að endurmeta forsendur áætlunargerðarinnar og getur það meðal annars haft áhrif á getu ríkisins til að grípa til aðgerða hvort sem er á tekju- eða gjaldahlið áætlunarinnar. Slíkt kann því að hafa áhrif á áform í skattamálum, fjárfestingum og eftir atvikum á öðrum sviðum, svo sem í húsnæðismálum. Þá er stöðugleiki í efnahagsmálum jafnframt mikilvægur fyrir undirbúning aðgerða til afnáms fjármagnshafta.

Verðbólgan hefur sjaldan verið eins lítil og á síðasta ári. Hún hefur verið undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans frá því í janúar 2014. Innflutt verðbólga hefur verið lítil og verðhjöðnun hefur hrjáð nokkur Evrópuríki. Lækkun olíuverðs er hér einn stærsti þátturinn en olíuverð hefur lækkað um helming frá síðastliðnu sumri. Hækkað húsnæðisverð hefur haldið verðbólgunni uppi hér á landi undanfarin missiri. Hagstofan spáir því nú að verðbólga verði 1,4% í ár en næstu ár verði hún nærri verðbólgumarkmiði Seðlabankans, þ.e. 2,5%. Niðurstöður kjarasamninga á næstu vikum og mánuðum munu að sjálfsögðu ráða miklu um þróun verðbólgu næstu missirin. Hagstofan hefur spáð að jafnaði 5% hækkun launa næstu árin. Á síðustu 20 árum hefur launavísitalan hækkað að meðaltali um 6,7% á ári.

Hagstofan spáir áframhaldandi bata á vinnumarkaði. Skráð atvinnuleysi var 3,6% árið 2014 en varð hæst um 8% eftir fall bankanna. Hagstofan spáir því að atvinnuleysi lækki í 3% á þessu ári og haldist svo nær óbreytt. Þessi mikla lækkun atvinnuleysis kemur skýrt fram í útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs. Útgjöld hans hafa lækkað um tæp 60% frá því sem mest var á árunum 2009–2012.

Ef við tökum saman meginmarkmið þessarar þingsályktunartillögu um ríkisfjármálaáætlun eru þau eftirfarandi: Tekjuafkoma ríkissjóðs batni jafnt og þétt yfir tímabilið og afgangur verður orðinn að minnsta kosti 1% af vergri landsframleiðslu árið 2018. Frumtekjur ríkissjóðs vaxi ekki umfram vöxt vergrar landsframleiðslu frá 2015 fram til ársins 2019. Frumgjöld ríkissjóðs vaxi hægar en verg landsframleiðsla og nokkuð hægar en frumtekjur og lækki um 1% af vergri landsframleiðslu frá 2015 til ársins 2019. Brúttóskuldir ríkissjóðs lækki um 10% að nafnvirði og lækki um 15% sem hlutfall af vergri landsframleiðslu frá árslokum 2015 til ársloka 2019.

Við í meiri hluta fjárlaganefndar bendum á og tökum undir að í þessari áætlun komi fram að þrátt fyrir að jákvæð teikn séu á lofti á öllum helstu sviðum ríkisfjármálanna séu veigamiklir óvissuþættir fyrir hendi. Þar munar ekki síst um útkomu kjarasamninga sem enn eru í gangi. Þá má einnig horfa til annarra hluta eins og til dæmis möguleika á aflabresti, dræmri eftirspurn í okkar viðskiptalöndum o.s.frv. þannig að óvissuþættir eru nokkrir.

Reyndar getur og væntanlega mun afnám hafta hafa jákvæð áhrif á skuldastöðuna og klárlega á vaxtakostnað eins og fram hefur komið sem væntanlega mun lækka verulega en ekki er þó gert ráð fyrir því í forsendum hér.

Í þessari áætlun kemur fram að uppsöfnuð vaxtagjöld ríkissjóðs frá bankahruni á verðlagi ársins 2015 nemi um 580 milljörðum kr. og því sé brýnt að selja eignarhluti í fjármálafyrirtækjum og öðrum félögum auk þess að endurfjármagna ekki hluta af skuldsettum gjaldeyrisforða heldur endurfjármagna önnur lán ríkissjóðs með hagstæðari kjörum en nú er gert.

Varðandi eignarhluta í fjármálafyrirtækjum þarf væntanlega eitthvað að endurskoða það í ljósi nýjustu tíðinda og ég vænti þess að það verði gert.

Þetta mun styrkja stöðu ríkissjóðs gegn hagsveiflum sem og draga úr vaxtabyrðinni og auka þannig svigrúm, m.a. til uppbyggingar og til að mæta vaxandi öldrunarkostnaði og lífeyrisskuldbindingum.

Á næsta ári er áformað að heildartekjur A-hluta ríkissjóðs nemi samtals 682 milljörðum kr. og útgjöldin 671 milljarði. Heildarjöfnuður verður því jákvæður um 11 milljarða kr., þ.e. sem nemur um 0,5% af landsframleiðslu.

Meiri hluti fjárlaganefndar telur brýnt að fyrirætlanir um rekstrarafgang næsta árs gangi eftir og væntir þess að forsendur fjárlagafrumvarps 2016 byggist á þessari ríkisfjármálaáætlun. Við í meiri hluta fjárlaganefndar leggjum til að framvegis verði gengið skrefi lengra í skiptingu á útgjaldaramma og honum ekki aðeins skipt eftir hagrænni skiptingu heldur einnig á hvert ráðuneyti og málaflokka þeirra og þá taki áætlunin framvegis til fimm ára í stað fjögurra. Þessar breytingar eru í samræmi við 5. gr. frumvarps til laga um opinber fjármál sem fjallar um fjármálaáætlun.

Hér í morgun hafa nokkrir hv. þingmenn kvatt sér hljóðs og fjallað um þessa þingsályktunartillögu með tilliti til nýjustu tíðinda af fjármálahöftum, rætt það að forsendur hafi breyst mikið með haftafrumvörpunum og því sé þessi þingsályktunartillaga í raun ómarktæk. Ég er ekki sammála því á heildina litið, ég held að langstærstur hluti þessarar þingsályktunartillögu standi eins og hann er. Að vísu eru komnar nýjar forsendur varðandi ákveðin mál sem ég tel að þurfi að skoða. Auðvitað eigum við helst að senda frá okkur áætlun sem er í samræmi við nýjustu fréttir og upplýsingar. Við vitum ekki hvaða áhrif haftafrumvörpin hafa nákvæmlega á þjóðarhag að öllu leyti. Slíkir útreikningar liggja ekki fyrir þannig að það er erfitt að gera miklar breytingar á þessari tillögu í ljósi þeirra tíðinda sem við fengum í gær, eigum að ræða hér og á eftir að fara í gegnum nefndir og annað slíkt. Ég held að við getum aldrei gert veigamikla breytingu á þeirri þingsályktunartillögu sem hér er í síðari umr. enda var hún byggð á öllum fáanlegum upplýsingum þegar hún var lögð fram.

Ég kom áðan aðeins inn á sölu eigna sem menn hafa líka rætt hér í morgun. Ég tel að hún hljóti að endurskoðast í ljósi nýjustu tíðinda um vaxtabyrði ríkissjóðs sem mun væntanlega lækka til muna frá því sem menn höfðu áður ætlað og munar þar tugum milljarða. Munar um minna fyrir ríkissjóð þannig að afkoma ríkissjóðs mun batna verulega, þ.e. við höfum þá peninga til að setja í aðra hluti sem er mjög jákvætt.

Hv. þm. Árni Páll Árnason minntist í morgun einnig á aldraða og öryrkja. Ég vil bara segja um þá hópa að það er mjög mikilvægt að bæta stöðu þeirra verulega frá því sem nú er. Það hefur verið mjög framarlega á mínu áhugasviði að bæta kjör þeirra. Hvort þeir fái 300 þús. kr. eins og lágmarkslaun eiga að verða ætla ég ekki að segja neitt um en ég get ítrekað, eins og ég hef mörgum sinnum gert, að við þurfum að gera mun meira fyrir þessa hópa. Það á að vera forgangsmál þessarar ríkisstjórnar, þau tvö ár sem eru eftir af starfstíma hennar.