144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:18]
Horfa

Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni þessar spurningar. Mér sýnist bætast ört á lista þeirra sem vilja tala hér þannig að það er ekki víst að málið klárist einn, tveir og þrír í umræðunni.

Varðandi öryrkja og aldraða vil ég bara segja það eitt að það þarf að gera mun meira fyrir þessa hópa. Ég veit ekki hvort það er framkvæmanlegt að lágmarksgreiðslur til öryrkja verði 300 þús. kr. Svo ég sé hreinskilinn held ég ekki endilega að við eigum að fara upp í þá upphæð. Ég vil hins vegar gera mun betur við þessa hópa en búið er að gera. Við skulum ekki heldur horfa fram hjá því að við sjáum gríðarlega fjölgun verða í þeim hópum á næstu áratugum, sérstaklega ef við lítum til aldraðra. Ef við ætlum að fara upp í þessar upphæðir sem þú ert að tala um, kannski 300 þús. kr., yrði kostnaður ríkisins gífurlegur. Þetta er bara nokkuð sem við þurfum að horfast í augu við. (Forseti hringir.) Hins vegar eigum við að sjálfsögðu að gera eins vel og við mögulega getum.