144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:19]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Eins og við höfum rætt hér upplifir maður þetta meira eins og einhvers konar yfirlit um það sem kann að gerast í framtíðinni. Alveg óháð haftamálinu er allt of mikið hérna ófrágengið. Hér er til dæmis kafli sem heitir Stefna í skattamálum. Þetta er sem sagt stefna sem kemur í byrjun apríl og hér er lagt til að tryggingagjald verði lækkað árlega næstu fjögur árin. Í aðgerðum ríkisstjórnarinnar í skattamálum er talað um að tryggingagjaldið verði líklega ekki lækkað, hins vegar eigi að fara í mjög miklar aðgerðir í að lækka tekjuskatt, ekki bara um 6 milljarða eins og gert er ráð fyrir hér, heldur jafnvel talað um eina 11 milljarða. Það eru 16 milljarðar reyndar í fyrirsögninni, ég veit ekki alveg hver munurinn á þessu tvennu er, ég hef ekki kynnt mér það ítarlega. Og í áætluninni er einnig farið ofan í (Forseti hringir.) prósentubrot þegar verið er að ræða framkvæmdina á þessum tekjuskattsbreytingum. Hvað segir hv. þingmaður um það? Getur þetta verið stefna þegar tveim mánuðum seinna er komin ítarleg stefna?