144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:31]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Málið var ekki nógu vel unnið þegar það kom til þingsins. Það er tvisvar sinnum talað um gjaldeyrishöft og í sömu málsgrein er í eitt skipti talað um fjármagnshöft. Þetta eru fjármagnshöft. Seðlabankinn er búinn að samþykkja að þetta séu fjármagnshöft, ekki gjaldeyrishöft. Hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson hefur staðið hérna í ræðustól og sagt: Nei, þetta eru ekki gjaldeyrishöft, þetta eru fjármagnshöft. Þannig kemur þetta úr ráðuneytinu. Ég get rennt yfir þetta, hef bara þessar forsendur, og get sagt: Nei, þetta eru ekki gjaldeyrishöft, það er rangt farið með mál hérna. Málið er ekki vel unnið. Svo er málfarið ekkert sérstaklega gott heldur. Það er talað um að unnið sé öllum árum að því að eitthvað sé gert. Maður rær öllum árum að einhverju. Þetta mál er ekkert vel unnið frá ráðuneytinu í fyrsta lagi.

Í öðru lagi er einn gestafundur þegar málið kemur til nefndar sem ætlar að fjalla um það. Á þeim gestafundi sem er fundur númer tvö eru Ríkisendurskoðun og Hagstofan. Það hefði verið hægt að hafa fleiri gestakomur. Íbúðalánasjóður sem er stór óvissuþáttur í máli Hagsmunasamtaka heimilanna þar sem dæmt verður um hvort verðtryggingin sé löglega útfærð í öllum verðtryggðu lánunum sem Íbúðalánasjóður er með, hann er (Forseti hringir.) með 70% þeirra, en samt sem áður er Íbúðalánasjóður á fundinum í öðru máli en er ekki tekinn inn þegar ræða á þetta mál. Nei, þetta mál hefur ekki verið vel unnið í nefndinni og nefndin ætti að fara betur yfir það.