144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:38]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég held að við þurfum að fá hæstv. fjármálaráðherra í hús til að fá svar við þeirri spurningu á hvaða forsendu þessi þingsályktun bindur ráðherra sem þarf að framfylgja henni. Í þingsályktunartillögunni segir, eins og hv. þm. Oddný Harðardóttir benti á, að Alþingi álykti samkvæmt ákveðinni grein þingskapa að stjórnvöld fylgi stefnumörkun um ríkisfjármál fyrir árin 2016–2019. Svo heldur áfram aðeins neðar: „á grundvelli þeirra forsendna sem ríkisfjármálaáætlunin er reist á“.

Á hvaða hátt og að hve miklu leyti er ráðherra bundinn ef Alþingi samþykkir þessa þingsályktunartillögu? Við vitum það ekki. Þá held ég að það sé mikilvægt að ráðherra sjálfur útskýri fyrir okkur hvort hann telji sig hreinlega bundinn af áætlun sem er ekki betur unnin en þetta eða hvort hann ætli bara að fylgja henni í blindni, áætlun sem er ekki unnin betur en þetta, hvorki úr ráðuneytinu né í nefnd. Hún fór ekki í umsagnarferli, það var ekki talað við alla þá aðila sem klárlega eru skilgreindir sem óvissuþættir í þessu. (Forseti hringir.) Þetta er ekki vel unnið mál. Er ráðherra bundinn? Hann verður að koma og svara því.