144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:42]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Það er kannski vegna þess að ég er hér inni núna að þessu sinni einungis fáa daga að ég er einhvern veginn í hjarta mínu nískur á tíma Alþingis og vil gjarnan sjá hann nýtast sem allra best. Þetta mál er þannig vaxið að strax þegar það var lagt fram voru ýmsar forsendur í því mjög hæpnar. Það sem hefur gerst frá 1. apríl er síðan þannig að ekkert er eftir af málinu sjálfu og þeir gleðilegu atburðir sem urðu sannarlega núna um helgina fóru eiginlega með restina af þessu. Eini tilgangurinn sem eftir stendur í umræðu um þetta plagg er að ræða hina almennu pólitísku línu í því, þ.e. almennar stjórnmálaumræður en þær eiga heima undir öðrum lið í þinginu, m.a. undir eldhúsdeginum. Til að þær nái tilgangi sínum verða fulltrúar allra pólitískra afla að taka þátt í þeim þannig að ég mæli með því að forseti íhugi þetta mál.

Ég á svo annað erindi við forseta sem ég kem að í síðari ræðu minni (Forseti hringir.) sem ég panta hér með.