144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:49]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Eins og tæpt hefur verið á í umræðu um fundarstjórn forseta er þetta mál nokkuð einkennilega vaxið og er orðið einkennilegra með nýjustu jákvæðu tíðindum um fyrirhugaða losun hafta. Það er þannig með þetta plagg, ríkisfjármálaáætlun, að maður veit eiginlega ekki alveg hvað manni á að finnast. Ég var svolítið lengi að velta fyrir mér hvort ég ætti eitthvað að vera að tala um það.

Hvað er þetta? Mér finnst þetta í besta falli, eins og kemur fram í nefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar, vera einhvers konar drög, mögulega fyrstu drög að einhverri ríkisfjármálaáætlun. Mér finnst þessi drög birtast mér þá þannig að hér er mjög stíft byggt á hagspá Hagstofunnar þegar hún var ágætlega kynnt efnahags- og viðskiptanefnd. Mér birtist þetta strax þannig, og það hefur ekkert breyst, að þarna var bara hagspáin færð í þetta form og skírð ríkisfjármálaáætlun. Mér finnst það grundvallarmisskilningur á því hvað á að gera. Hér vantar stefnuna. Hér vantar að segja þingheimi og þjóð eitthvað frá því hvað stendur til, hvað á að gera, hvar áherslurnar liggja, hvar helstu úrlausnarefnin eru, hvaða hagstærðir muni breytast með fyrirhuguðum aðgerðum o.s.frv.

Það vantar líka ramma utan um sundurliðuð útgjöldin í ríkisfjármálum eins og á að vera, þau eru ekki fyrir hendi. Maður getur haft ákveðinn skilning á því að þetta er í fyrsta skipti sem þessi áætlun er lögð fram á þessum tíma eins og á að gera. Út af fyrir sig er gott að það tókst, en það verður samt að gera betur. Svona plagg held ég að eigi ekki að vera fordæmi fyrir þær ríkisfjármálaáætlanir sem við viljum sjá í framtíðinni.

Svo getur maður líka alveg haft skilning á því að sumt, og sérstaklega á þessum tímum í Íslandssögunni undanfarið, er auðvitað háð óvissu og hefur verið háð óvissu. Afnám hafta eða fyrsta skrefið í afnámi hafta eða hvað sem við köllum þær aðgerðir sem voru kynntar í gær, auðvitað var það ekkert fast í hendi og er ekki enn fast í hendi að það muni allt saman takast þó að teiknin séu jákvæð. Ég hef alveg skilning á því að þetta geti verið og hafi verið háð mikilli óvissu og kannski er ábyrgðarhluti að setja svoleiðis hluti beint inn í ríkisfjármálaáætlunina. Eins og í því tilviki getur myndast einhvers konar sjóður á innstæðureikningum Seðlabankans upp á 500–800 milljarða. Það hafa svo sem allir alltaf vitað að svigrúm af þessu tagi væri einhvers staðar fyrir hendi en um það hefur verið deilt til hvers svona sjóður er nýtilegur og til hvers er réttlætanlegt að nýta hann út frá hagfræðilegum sjónarmiðum. Þetta eru auðvitað bara sömu peningarnir og fóru hér í umferð 2005 og settu allt á hliðina og við viljum ekki að þessir peningar geri það sama aftur.

Það hefði verið hægt að setja í ríkisfjármálaáætlunina klausu um þetta og ef ekki í hana hefði meiri hluti fjárlaganefndar kannski átt að geta þess að svona stórt mál gæti haft svolítið mikil áhrif á helstu hagstærðir, kannski á skuldastöðu ríkissjóðs og þar fram eftir götunum. Þetta vantar. Það er svo margt svona sem vantar sem gerir það að verkum að þetta plagg er því miður ekki neitt neitt, það verður að segjast. Þetta er kannski jafn mikið og jafn gott og hagspá Hagstofunnar. Hún er auðvitað fín. Þar er reynt að rýna í hvernig hlutirnir líta út akkúrat á þessari stundu miðað við þær forsendur sem eru fyrir hendi, en ríkisfjármálaáætlun á að vera meira en það. Aðgerðirnar sem hafa verið boðaðar um afnám hafta eru alveg augljóst dæmi um nokkuð sem menn gátu alveg séð fyrir að væri alltént skynsamlegt að setja í nefndarálit að hefði áhrif Mér finnst þetta reyndar vera þannig tíðindi að það sé full ástæða til að kalla málið aftur inn í nefndina eða bara einfaldlega afturkalla það og viðurkenna að forsendur þessarar ríkisfjármálaáætlunar eru algjörlega brostnar.

Ef afnám hafta tekst með þessum hætti, með þessum ábyrga hætti vil ég segja vegna þess að þarna er boðið upp á samningaleið við kröfuhafa sem við í Bjartri framtíð höfum kallað mjög eftir, undir þeim hvata sem stöðugleikaskatturinn er, virðist hún vera sú leið sem á að fara og mun leysa höftin. Þá myndast þessi sjóður af peningum, íslenskum krónum, á innlánsreikningi eða sérstökum reikningi uppi í Seðlabanka Íslands. Það er alveg rosalega mikilvægt mál og ég mundi segja að það ætti að ræða það undir hatti ríkisfjármálaáætlunar, ef hún á að merkja eitthvað, hvernig á að fara með svona peninga. Mér skilst og ég veit að það er í anda fyrirhugaðrar löggjafar um opinber fjármál að það sé kirfilega hoggið í stein hvernig svoleiðis peningar eru nýttir.

Hér segja menn, og það virðist blessunarlega vera samkomulag um það, að menn ætli ekki að líta á þessa peninga sem einhvern kosningasjóð fyrir kosningarnar 2017 heldur fari þeir í að greiða niður opinberar skuldir. Það er samt ekkert einfalt mál, það er ekkert einfalt mál að greiða niður opinberar skuldir í einu vetfangi. Það getur líka haft í för með sér að peningarnir fari bara út í hagkerfið. Einhvers staðar á hinum endanum er fólk sem á þessi skuldabréf og það er ekki sama hvernig skuldirnar eru greiddar upp. Ef of stórar erlendar skuldbindingar eru greiddar upp í einu vetfangi hefur það áhrif á gengið þannig að það eru ýmis spursmál tengd þessu sjálfsagða og góða markmiði, held ég, að greiða niður opinberar skuldir. Það þarf að fjalla um hvernig það er gert og mér finnst slæmt að vera hér að ræða ríkisfjármálaáætlun í samhengi við þessi nýjustu tíðindi og það er engin umræða um þetta. Hvernig á þetta mögulega að geta farið fram? Hvernig sjá menn þetta fyrir sér? Það er alveg ótrúlegt að heyra það að fjárlaganefnd hafi fjallað um ríkisfjármálaáætlun án þess að kalla til gesti. Og af hverju var efnahags- og viðskiptanefnd ekki látin fjalla um þetta líka?

Á þessum tímapunkti væri til dæmis bara mjög gott að heyra í þeim sem hafa með það að gera hvernig skuldir ríkisins eru greiddar niður og hvernig hægt er að gera það á þessu árabili með þeim peningum sem þarna verða mögulega fyrir hendi. Kannski við ættum að ræða það líka hvort þá peninga sem kannski koma með afnámi hafta væri hægt að nota til þess að taka á þeim ógnarstóra vanda sem birtist í lífeyrisskuldbindingum ríkisins. Þetta þyrfti að ræða. Og ég veit ekki alveg af hverju við erum að ræða ríkisfjármálaáætlun ef það er ekki verið að ræða þessa hluti.

Og þetta er bara einn óvissuþátturinn. Það er svo margt annað, m.a. áhrif kjarasamninga. Ég held að við verðum alveg að horfast í augu við það á þessum tímapunkti að kjarasamningarnir verða ekki innan þess svigrúms sem er gengið út frá í ríkisfjármálaáætlun. Mér sýnist sem farið verði í brattari kjarabætur en menn hafa vonast eftir út frá áherslum í ríkisfjármálum. Þarf þá ekki að taka það með í reikninginn við gerð ríkisfjármálaáætlunar? Eru ekki verkefnin að mörgu leyti í tengslum við þessa nýju stöðu afnám hafta með losun á því svigrúmi sem það er, skattalækkanir tengdar kjarasamningum og afnám tolla tengt kjarasamningum, fínt mál eitt og sér, umfangsmiklar kjarabætur út af kjarasamningum, aðgerðir í húsnæðismálum, t.d. bygging félagslegra íbúða ofan á mikinn uppgang í byggingariðnaði fyrir? Það er verið að byggja fyrir ferðamenn hótel og gistirými. Það er líka verið að byggja íbúðir hér og þar þannig að þar er uppgangur. Mögulegar eru virkjanaframkvæmdir, þó að það væri ekki nema Hvammsvirkjun, það er það sem verkefnisstjórnin um nýtingu og vernd hefur samþykkt. Allt þetta ofan á mjög umdeildar skuldaleiðréttingaraðgerðir ríkisstjórnarinnar, sem við í Bjartri framtíð mótmæltum, hlýtur að kalla á að við ræðum af talsverðri dýpt undir hatti ríkisfjármálaáætlunar hvernig við ætlum að koma í veg fyrir ofþenslu á Íslandi og hvernig við ætlum að koma í veg fyrir að leikurinn frá 2005, sem endaði í hruni 2008, endurtaki sig.

Þetta á að ræða undir þessum lið, þetta á að ræða í þessari áætlun. Ég sé ekkert raunhæft eða athyglisvert innlegg til þeirra mála í þessari áætlun. Þarna er ekkert um fjárfestingar ríkisins, ég trúi ekki þessari áætlun þegar kemur að fjárfestingum. Það er í rauninni sagt berum orðum að opinberar fjárfestingar mæti ekki afskriftum. Það þýðir bara hnignun, það þýðir að vegir og hús muni drabbast niður, það þýðir það ef fjárfestingin mætir ekki afskriftum.

Þetta kemur mér á óvart og ég get ekki tekið þetta alvarlega vegna þess að ég held að það sé alveg viðurkennt að í kjölfar hrunsins hafi orðið að draga saman í mjög mikilvægum fjárfestingum, í innviðum samfélagsins, í vegakerfinu. Ég þarf ekki annað en að horfa á samgönguáætlanir undanfarinna ára til að sjá til dæmis að það er rosalega lítill peningur í viðhald vega. Það þarf að gefa í í uppbyggingu hjúkrunarrýma svo dæmi sé tekið. Við þurfum að byggja upp öflugt fjarskiptakerfi, hafnir liggja undir skemmdum og þar fram eftir götunum. Það er rík þörf á fjárfestingu í innviðum og ein mjög stór fjárfesting, sem hefur mikið verið rædd hér og ég veit ekki betur en að ríki pólitískur einhugur um, er að byggja nýjan Landspítala og endurbæta byggingarnar þær. Í ríkisfjármálaáætluninni sér þessa ekki stað nema að takmörkuðu leyti. Jú, það fer peningur í hönnunina og það fer peningur í sjúkrahótel — en á ekki að byggja spítala?

Þessi ríkisfjármálaáætlun skilar algjörlega auðu þegar kemur að því að gera einfaldlega grein fyrir fjárfestingum í innviðum sem þó er jafnvel þegar búið að samþykkja í þessum sal að fara í. Ég átta mig ekki á því hvað býr að baki. Menn afgreiða áætlun um opinberar fjárfestingar þannig að það verði eitthvert smásvigrúm fyrir ný, óráðin verkefni. Erum við virkilega á þeim stað með ríkisfjármálin að við getum ekki sagt fyrir í aðeins meiri smáatriðum hvaða fjárfestingar við ætlum í á næstu fimm árum? Er það ekki mögulegt?

Hvað þýðir það, hvaða áfellisdómur er það þá yfir vinnulaginu hér og hvernig við nálgumst ríkisfjármál? Meiri hlutinn getur ekki einu sinni sett inn í ríkisfjármálaáætlunina hluti sem hefur verið samþykkt hér að eigi að gera, hvað þá að hann geti sett inn í ríkisfjármálaáætlunina augljósa hluti eins og þörfina á viðhaldi vegakerfisins og uppbyggingu vega, bara svo dæmi sé tekið.

Ég get eiginlega ekki tekið alvarlega þessa áætlun þegar kemur að þessu og fleiri hlutum. Ekkert er minnst á Íbúðalánasjóð þótt allir viti sem hafa fengið Íbúðalánasjóð á fund einhverrar nefndar að þar verður fjárþörf, þar verður vandi og hefur verið vandi. Hvernig á að taka á því? Það er vandi af þeirri stærðargráðu að hann mun hafa áhrif á ríkisfjármál ef menn ýta þessu á undan sér.

Ég hef minnst á lífeyrisskuldbindingar. Ætla menn að hafa ástandið hvað varðar kaup á S-merktum lyfjum áfram eins og það hefur verið? Við höfum dregist mjög aftur úr öðrum þjóðum þegar kemur að því að kaupa ný lyf. Við erum farin að bera okkur saman við mjög afturhaldssama staðla. Ætlum við að hafa það þannig áfram? Þetta er stór kostnaðarliður og þarna gildir að sýna á spilin, sýna pólitísku stefnumörkunina. Við þurfum að vita það, ég mundi segja að þarna væri mál sem þyrfti að taka með inn í ríkisfjármálaáætlunina.

Hvernig á skattkerfið að vera? Ætlum við að lækka tryggingagjald eða ekki? Ætla menn að fara í eitt þrep á virðisaukaskatti? Menn boða það stundum en svo sér þess ekki stað í ríkisfjármálaáætluninni. Hvað meina menn? Húsnæðisbótakerfið allt saman, ætla menn að fara í þessar húsnæðisbætur með tilheyrandi kostnaði eða ekki? Eigum við að trúa hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra eða ekki? Hverju eigum við að trúa? Af hverju er þetta ekki í ríkisfjármálaáætluninni?

Óreglulegir liðir eru mjög stórir í þessari áætlun. Þeir eru auðvitað alltaf einhverjir en þeir eru óeðlilega stórir að mínu viti.

Það eru líka alls konar spennandi áform og áætlanir í gangi innan fyrirtækja í eigu hins opinbera eins og Landsvirkjun. Landsvirkjun boðaði á dögunum stefnu og hefur reyndar boðað um talsverða hríð stefnu þar sem reynt verður að fá aukinn arð af þeirri orku sem Landsvirkjun selur. Þetta er stefna sem við í Bjartri framtíð styðjum heils hugar og teljum að ætti að fara í af mikilli ákveðni. Við fögnuðum því þegar hæstv. fjármálaráðherra boðaði á dögunum orkuauðlindasjóð þar sem arðurinn af þeim auðlindum sem við erum þó að selja verður aukinn og settur í einhvers konar sjóð til að styðja við uppbyggingu innviða, auka stöðugleika og vera varasjóður á erfiðum tímum. Góð hugmynd, en af hverju er hún ekki hér? Af hverju er hún ekki í ríkisfjármálaáætluninni til fimm ára? Er hæstv. fjármálaráðherra bara eitthvað að pæla og hugsa upphátt? Er þetta ekki nokkuð sem þarf að rata inn í áætlanir svo þær hafi einhverja þýðingu, þótt ekki væri nema bara sú stefnubreyting sem Landsvirkjun hefur boðað um stórauknar arðgreiðslur?

Svo sakna ég þess að í þessari áætlun í ríkisfjármálum og áætlun í efnahagsmálum ætli menn ekkert að ræða gjaldmiðilinn. Menn ætla ekkert að ræða hver stefnan á að vera með gjaldmiðilinn. Menn segja núna að það sé aldeilis gott að við höfum krónuna vegna þess að annars hefðum við aldrei getað losað gjaldeyrishöftin. Þetta er ótrúlega þversagnakennt í mínum huga. Við hefðum aldrei haft þessi gjaldeyrishöft og þennan vanda ef við hefðum ekki haft krónuna þannig að, jú, krónan er notuð til þess að leysa þann vanda sem krónan kom okkur í. Þannig er það bara. Mér finnst þessi tíðindi um afnám haftanna, eins jákvæð og þau eru, vekja mjög ágengar spurningar um það hvert framtíðarfyrirkomulag gjaldeyrismála verður. Þó að við leysum vanda sem felst í krónueignum búanna og í aflandskrónunum stendur eftir þörf íslensks almennings, þörf lífeyrissjóðanna, þörf fyrirtækja til að binda fé sitt í öðrum gjaldmiðli en þeim íslenska til að fjárfesta erlendis. Eftir mun standa sú hætta sem við þurftum að horfast í augu við 2005 þó að við höfum ekki gert það nægilega vel, þ.e. innstreymi fjármagns ef vextir hækka hér. Það er alltaf sú hætta.

Hvernig ætlum við að búa svo um hnútana að við förum ekki aftur í sömu kollsteypurnar? Mér finnst að í ríkisfjármálaáætlun eigi menn að segja hvernig þeir ætla að hafa helstu umgjörð gjaldmiðilsmála líka. Ég vil minna á það af þessu tilefni að Björt framtíð hefur tvisvar sinnum lagt fram þingsályktunartillögu um mótun gjaldmiðilsstefnu. Það væri í öllu falli eitthvað sem við ættum að samþykkja, samfara því að við ræðum hér ríkisfjármálaáætlun ættum við að samþykkja þingsályktunartillögu um að ríkisstjórnin kynni með reglulegu millibili áætlanir sínar varðandi gjaldmiðilinn með skilgreindum markmiðum. Ég vil segja að það sé eitt af mörgum stórum púsluspilum sem vantar inn í það að þessi ríkisfjármálaáætlun geti á einhvern hátt þýtt eitthvað.