144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:16]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, ég tel ekki nóg að gert. Það er náttúrlega vitnisburður um að ekki er nóg að gert að enn eru mjög harðar kjaradeilur í landinu. Bandalag háskólamenntaðra er enn þá í mjög harðri kjaradeilu þar sem ríkið er viðsemjandi.

Mér hefur fundist skorta mjög á skilning á því af hálfu ríkisstjórnarinnar að það skiptir auðvitað máli hvað ríkisstjórnin gerir. Ég held til dæmis að tekjuöflunarfrumvörp ríkisstjórnarinnar fyrir jól hafi verið mjög vond í aðdraganda kjarasamninga þar sem ákveðið var að skerða bótatímabil atvinnuleysisbóta án samráðs við vinnumarkaðinn, halda áfram að svíkja starfsendurhæfingarsjóð um samningsbundið framlag og svo hefur Fæðingarorlofssjóður verið í töluverðu uppnámi, finnst mér, og er á mörkum þess að standa undir hlutverki sínu. Þetta held ég að hafi áhrif á þá kjaradeilu sem við erum í núna.

Ég held að við þyrftum að sjá einhverja áætlun um endurreisn Fæðingarorlofssjóðs til að tala hressilega inn í þann hóp sem er núna í verkfalli. Það þyrfti líka að taka málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp á borðið, endurgreiðslubyrði námslána og þar fram eftir götunum. Ég held að það mundi hafa áhrif á þann hóp sem er í verkfalli núna, líka allt sem viðkemur húsnæðismálum og lægri greiðslubyrði af húsnæði sem og allt sem viðkemur lánamarkaðnum. Ég vil leyfa mér að segja að allt sem viðkemur gjaldmiðilsmálum væri líka gott innlegg í kjarabaráttu þessara hópa. Ég held að það sé mjög margt og ekki bara í skattkerfinu. Ég held að lækkun tryggingagjalds mundi líka hafa góð áhrif á þennan hóp vegna þess að (Forseti hringir.) þá er verið að jafna aðstöðu fyrirtækja til að koma undir sig fótunum í rekstri vegna þess að þetta er gjald sem leggst jafnt á öll fyrirtæki. Það yrði gott innlegg líka þannig að ég held að það sé fjölmargt sem ríkisstjórnin gæti gert til að greiða úr þessu ástandi.